spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaOrðið á götunni: Er Jón Arnór að taka við Keflavík?

Orðið á götunni: Er Jón Arnór að taka við Keflavík?

Hér fyrir neðan eru nokkur af þeim atriðum sem Körfunni hafa borist til eyrna á síðustu dögum er varða leikmenn, þjálfara og félög á Íslandi. Tekið skal fram að hér er um að ræða óstaðfestar fregnir og því ber að taka þeim sem slíkum.

  • Þjálfaramál Keflavíkur eru á allra orði eftir að Hjalti Vilhjálmsson sagði skilið við liðið eftir fjögurra ára starf hjá félaginu. Formaður þeirra Magnús Sverrir Þorsteinsson setti mynd af sér með Jóni Arnóri Stefánssyni á samfélagsmiðla fyrr í dag, en það hefur verið í umræðunni síðustu daga hvort hann taki mögulega við liðinu.

  • Þá er það einnig í umræðunni að tveir aðrir komi til greina sem arftakar Hjalta í Keflavík, Máté Dalmay sem gerði vel með nýliða Hauka á þessu tímabili sem er að líða og þá er einnig sá orðrómur að einn þeirra fjögurra þjálfara sem eftir eru í undanúrslitum Subway deildarinnar (Benedikt/Njarðvík, Pavel/Tindastóll, Lárus/Þór eða Finnur/Valur) vilji taka við liðinu.

  • Jóhann Þór Ólafsson er talinn líklegur til þess að framlengja samningi sínum við Grindavík fyrir komandi tímabil.

  • Grindvíkingar eru taldir ætla leggja allt í sölurnar á næsta tímabili og fara mögulega á eftir Herði Axeli Vilhjálmssyni leikmanni Keflavíkur, en eftir annan snubbóttan endi á tímabili Keflavíkur er óvíst hvort hann haldi þar áfram.

  • Talið er líklegt að fyrrum þjálfari Laugdæla Florijan Jovanov taki við Fjölni í Subway deild kvenna eftir að félagið sagði skilið við Kristjönu Eir Jónsdóttir á dögunum.

  • Þá hefur leikmaður Vals og fyrrum leikmaður Fjölnis Margrét Ósk Einarsdóttir einnig verið nefnd til sögunnar sem mögulegur arftaki Kristjönu í Grafarvogi.

  • Talið er næsta öruggt að Ægir Þór Steinarsson leikmaður íslenska landsliðsins og HLA Alicante á Spáni leiki í Subway deildinni á næsta tímabili. Hans gamla félag í Stjörnunni er sagt vera áhugasamt um að fá hann aftur í raðir sínar, en Ægir er sagður einnig vilja ræða við Val og Tindastól eftir að tímabilinu lýkur áður en hann ákveður sig.

  • Thelma Dís Ágústsdóttir er talin líkleg til þess að ganga til liðs við Keflavík nú í sumar eftir farsælan feril með Ball State í bandaríska háskólaboltanum. Valur, Haukar og Njarðvík eru þó öll sögð hafa áhuga á að semja við hana.

  • Leikmaður KR Þorvaldur Orri Árnason mun leika erlendis á næsta tímabili, en hann hafði verið orðaður við Stjörnuna eftir fall KR í fyrstu deildina.

  • Orri Gunnarsson nýstirni Hauka á tímabilinu mun vera með tilboð úr BNXT deildinni í Hollandi/Belgíu á borðinu fyrir næsta tímabil, en ekki er talið öruggt að hann taki því.

  • Þá er talið líklegt að annar leikmaður Hauka Alexander Knudsen muni halda í heimahagana og leika með KR á komandi tímabili í fyrstu deildinni.

  • Ísar Freyr Jónsson leikmaður Selfoss er einnig talinn líklegur til þess að taka slaginn með KR í fyrstu deildinni.

  • Aðrir leikmenn Selfoss, Arnaldur Grímsson og Ísak Júlíus Perdue eru báðir taldir líklegir til þess að vilja ræða við uppeldisfélög sín í Þór og Val fyrir komandi tímabil, þar sem orðið á götunni er að þeim langi að spila, en bæði lið eru enn í úrslitakeppni Subway deildarinnar.

  • Þá er þjálfari Selfoss Chris Caird sagður á förum, en talið er líklegt að félagið sé í viðræðum við Daða Stein Arnarson um að taka við liðinu.

  • Þá eru Ármenningar í fyrstu deild þjálfaralausir, en talið er gífurlega ólíklegt að Ólafur Þór Jónsson haldi áfram með liðið.

  • Hallgrímur Brynjólfsson fyrrum þjálfari Hamar/Þór í fyrstu deild kvenna er talinn líklegur til að taka við báðum liðum Þórs Akureyri fyrir næsta tímabil.

  • Leikmaður Keflavíkur Ólafur Ingi Styrmisson er talinn líklegur til þess að halda vestur um haf og leika í bandaríska háskólaboltanum á komandi tímabili, en Black Hills State er talinn líklegur áfangastaður.

  • Nýbakaðir meistarar fyrstu deildar kvenna í Stjörnunni eru sagðar vilja halda bandarískum leikmanni sínum Riley Marie Popplewell á komandi tímabili í Subway deild kvenna.

  • Sigvaldi Eggertsson er ekki talinn líklegur til þess að leika með ÍR í fyrstu deildinni á komandi tímabili, en líklegir áfangastaðir hans í Subway deildinni eru taldir Álftanes, Grindavík eða Haukar.

  • Leikmaður Keflavíkur Dominykas Milka er ekki talinn líklegur til þess að halda áfram með liðinu eftir þrjú fín tímabil. Samkvæmt götunni mun hann vilja halda áfram að spila á Íslandi, en líkleg lið nefnd sem næstu áfangastaðir hans eru Njarðvík, Grindavík, KR eða Álftanes.

  • Sá orðrómur er í gangi að miðherji Hamars og íslenska landsliðsins Ragnar Ágúst Nathanaelsson muni leggja skóna á hilluna eftir tímabilið, hvort sem að Hamar kemst upp í Subway eða ekki.

  • Sigurður Pétursson leikmaður Breiðabliks er talinn líklegur til þess að færa sig um set í sumar og er orðið á götunni að hann sé með tilboð bæði frá Íslandsmeisturum Vals og nýliðum Álftaness fyrir komandi tímabil.

  • Álftnesingar eru einnig sagðir hafa verið í sambandi við bróðir Sigurðar, Hilmar Pétursson, sem nú leikur fyrir Munster í þýsku Pro A deildinni.

  • Hákon Örn Hjálmarsson leikmaður fallliðs ÍR er samkvæmt orðinu í viðræðum við Hött á Egilsstöðum og talið er líklegra en ekki að hann leiki fyrir þá á næsta tímabili.

  • Þá er annar þjálfara Hattar Einar Árni Jóhannsson talinn líklegur til þess að söðla um fyrir austan og taka við Sindra á Höfn í Hornafirði.

Orðið á götunni er einungis til gamans og ef fólk hefur ábendingar um slúður skal hafa samband á [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -