Umræða hefur skapast nýlega varðandi þá ákvörðun um að dómarar sem starfa á vegum KKÍ geti ekki starfað einnig sem þjálfari í greininni. Í yfirlýsingu sem að KKÍ sendi vegna fyrirspurnar Karfan.is segir að reglan hafi verið í gildi með undanþágum en að nú sé komið að því að framfylgja reglunni til ýtrasta. Ekki eru margir dómarar í þessari stöðu þó svo að nokkrir hafi séu. Dæmið sem hvað helst snertir á taug flestra er dæmi Jóns Guðmundssonar dómara úr Keflavík. Jón er án nokkurs vafa einn af okkar allra færustu dómurum en um leið hefur hann átt stóran þátt í frábærum árangri yngriflokka Keflavíkurkvenna síðasta rúmlegan áratug. Árangur sem er algert einsdæmi þó víðar væri leitað.
Karfan.is senti fyrirspurn á KKÍ varðandi erindið og fengum við eftirfarandi yfirlýsingu frá sambandinu og ekki yrði málið frekar rætt við fjölmiðla:
KKÍ hefur það að markmiði að búa þeim sem annað hvort iðka körfuknattleik eða starfa innan hreyfingarinnar sem bestan faglegan umbúnað. Þeirri vinnu lýkur aldrei og hefur KKÍ notið leiðsagnar FIBA í þessum efnum.
Í vor komu fulltrúar FIBA í tvígang hingað til lands til þess að meta dómgæsluna og koma með tillögur til úrbóta með það að markmiði að auka gæði og fagmennsku. Stefnt er að því að slíkar heimsóknir verði reglubundnar.
Rétt er að benda á það hér að KKÍ er yfir dómaramálum á Íslandi en þess misskilnings hefur stundum gætt að dómarafélagið (KKDÍ) hafi þar boðvald.
Tilefni þessarar fyrirspurnar frá karfan.is er umræða um þá ákvörðun KKÍ að dómarar séu ekki starfandi þjálfarar. Ákvörðunin snýr að því að dómari getur ekki einnig verið að þjálfa lið í keppni og á sama tíma verið í dómari á niðurröðun hjá sambandinu. Þessi regla hefur verið við líði undanfarin ár en til þessa hafa undanþágur verið veittar. Nú er komið að því að fylgja reglunni eftir til hins ýtrasta. Ákvarðanir sambandsins eru ekki hafnar yfir gagnrýni en við teljum rétt að koma þeim sjónarmiðum sem réðu þessari tilteknu ákvörðun að hér.
Þessi ákvörðun er almenns eðlis og snýr að því að dómarar séu ekki settir í þá stöðu að þurfa að dæma leiki með félaga sínum sem þeir hafa dæmt hjá, stundum kvöldið áður eða seinna auk þess sem slíkt kann að þykja ósanngjarnt gagnvart þriðja aðila.
Í samtölum við fulltrúa FIBA kom skýrt fram að önnur sjónarmið, hver sem þau kunni að vera, vegi ekki þyngra en þau að allur vafi um hlutleysi eða vanhæfi geti aldrei verið véfengd.
Við þessa ákvörðun var stuðst við þau almennu sjónarmið um fagmennsku í dómgæslu.
Hannes S. Jónsson formaður KKÍ
Guðbjörg Norðfjörð Elíasdóttir varaformaður KKÍ og formaður dómaranefnda