Grindvíkingar munduðu pennann svo um munaði nú rétt í þessu þegar þeir Ólafur Ólafsson og Þorsteinn Finnbogason framlengdu samninga sína við félagið. Að auki þá var tilkynnt að Þorleifur Ólafsson muni vera bróður sínum, Jóhanni Þór til halds og trausts á hliðarlínunni sem aðstoðarþjálfari liðsins, en Þorleifur lagði skóna á hilluna eftir oddaleik í DHL höllinni í vor.
Stóru fréttirnar eru hinsvegar þær að Sigurður Gunnar Þorsteinsson er komin heim úr atvinnumennsku frá Grikklandi og hefur skrifað undir samning við Grindvíkinga. Sigurður hefur leikið með liðum Machite Doxa Fefkon og svo Larissa síðustu tímabil í B-deildinni í Grikklandi.
Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindvíkinga sagði í samtali við Karfan.is að vissulega væri það sterkt að fá Sigurð tilbaka. "Siggi er nátturulega stór og þekkt stærð í íslenskum körfubolta og kemur til með að styrkja okkar lið mikið. Svo hjálpar það líka að hann þekkir allt hérna, hvernig allt hérna virkar og allt það. Utanaðkomandi væntingar voru alltaf að fara að aukast eftir árangur síðasta veturs. Tilkoma Sigga kemur bara til með að auka þetta allt saman. Hvað markmið varðar það á það bara eftir að koma í ljós og ekkert gefið út að svo stöddu." sagði Jóhann Þór Ólafsson þjálfari liðsins um komu Sigurðar. "Það spilaði margt inní þá ákvörðun að koma heim og spila. En ég kem heim aðeins í 1 tímabil til að hlaða batteríin áður en maður fer kannski út aftur. Ég fékk vissulega tilboð frá öðrum liðum á Grikklandi en ég var ekki nógu spenntur fyrir þeim." sagði Sigurður í samtali við Karfan.is við tilefnið og gaf þar til kynna að atvinnumannaferli hans er ekki lokið erlendis.
Sigurður lék síðast með liði Grindvíkinga fyrir þremur árum síðan þegar Grindavík varð Íslandsmeistari 2012 og 2013 og svo bikarmeistari árið 2014. Þannig að óhætt er að segja að bikarlukka fylgi Sigurði í Grindavík. "Ég hef alltaf stefnt að því að vera bestur og vinna titla, hef líka alltaf unnið stóran titil með Grindavík, förum ekkert að breyta því núna." sagði Sigurður að lokum.
Það er í því nokkuð ljóst að Grindvíkingar ætla sér að byggja á árangur síðasta árs og gera betur og til þess þurfa þeir einfaldlega að landa þeim stóra vorið 2018. Þessar ráðningar eru vissulega stórt skref í þá áttina.
Fréttatilkynningu Grindavíkur má finna í heild sinni hér að neðan:
Körfuknattleiksdeild Grindavíkur er sönn ánægja að tilkynna um undirskrift við Sigurð nokkurn Þorsteinsson sem er þekkt stærð í íslenskum körfubolta. Siggi hefur leikið sem atvinnumaður í Evrópu undanfarin 3 ár við góðan orðstýr en taldi þetta góðan tímapunkt að snúa til baka í paradísina. Við bjóðum Sigga hjartanlega velkominn!
Í leiðinni endurnýjaði Ólafur Ólafsson sinn samning og bróðir hans, „the x-man“ Þorleifur Ólafsson er kynntur til sögunnar sem hægri hönd stóra bro, Jóhanns Ólafssonar.
Og eins og þetta sé ekki nóg, þá endurnýjuðu einnig samning sinn þeir Þorsteinn Finnbogason, Jens Óskarsson og Ómar Sævarsson sem mun þá klárlega taka við sem „gamli karlinn“ í liðinu en enginn kom til greina með þann titil á síðasta tímabili annar en Lalli! Eins er ljóst að hinn bráðefnilegi Ingvi Þór Guðmundsson mun leika með liðinu á næsta tímabili.
Með þessu teljum við okkur hafa gert liðið vel í stakk búið til að taka þátt í baráttunni í Dominos deildinni í vetur!
Mynd / Jón Björn Ólafsson – Sigurður lyftir bikarmeistaratitlinum með Grindavík árið 2014