spot_img
HomeÚti í heimiEvrópaNjarðvíkurstelpur með silfur á Scania Cup: Hulda María Scania Queen

Njarðvíkurstelpur með silfur á Scania Cup: Hulda María Scania Queen

Njarðvík landaði silfurverðlaunum á Scania Cup um páskana í Södertalje en liðið tapaði naumlega í úrslitum gegn KFUM Central Östermalm 64-74. Hulda María Agnarsdóttir var útnefnd Scania Queen en hún og Sara Björk Logadóttir voru báðar valdar í úrvalslið mótsins.

Í riðlakeppninni vann Njarðvík sigur á BMS Herlev, Norrköping Dolphins, PeKa og Hönefoss Basketballklubb. Liðið mætti svo BK Amager í 8-liða úrslitum og hafði þar nauman 64-61 sigur. Í undanúrslitum mætti liðið Malbas frá Svíþjóð og þar var um annan spennuslag að ræða sem lauk með Njarðvíkursigri 62-58.

Í úrslitaleiknum voru þær sænsku sterkari í síðari hálfleik, jafnt var á með liðunum undir miðbik þriðja leikhluta og þá sigu Svíarnir framúr og kláruðu 64-74. Í lokaleiknum var Kristín Björk Guðjónsdóttir valin besti leikmaður úrslitaliksins og Hólmfríður Eyja Jónsdóttir hlaut verðlaunin „fighting spirit 2008 stúlkur.”

Samkvæmt heimildum Karfan.is hafði aðeins Helena Sverrisdóttir verið útnefnd Scania Queen úr hópi íslenskra kvenna en þetta árið bættist í safnið þar sem Hulda María Agnarsdóttir frá Njarðvík og Björk Karlsdóttir fædd 2010 frá Keflavík voru báðar útnefndar Scania Queen og því fjölgar í hópi stúlkna frá Íslandi sem hljóta þennan eftirsótta titil.

Ert þú með frétt af þínu félagi á Scania mótinu? Sendu þær inn á [email protected]

Myndir/ JBÓ

Fréttir
- Auglýsing -