Valur mætti hálfblundandi í fyrsta leik seríunnar og mátti þola ósigur gegn liðinu úr 8. sætinu. Hlíðarendapiltar hófu sig hins vegar til stjarnanna í leik tvö og gjörsigruðu Garðbæinga.
Karfan ræddi við Arnar Guðjóns í vígamóð eftir ágætan leik Stjörnumanna þrátt fyrir tap:
Þetta var bara fínn leikur hjá ykkur að mörgu leyti en það er þessi ógurlega þreytandi frasi að þið náið 10 stiga forskoti í þessu tilviki og þá fer allt í baklás…
“Já og nei…Kári var náttúrulega bara stórkostlegur. Þeir tóku fyrstu 5 mínúturnar í fjórða þar sem þeir gátu ekki skorað og við tókum síðustu fimm – annar frasi; leikur áhlaupa! Kári tók yfir í restina og við fundum ekki leiðir til að skora.“
Akkúrat. Ertu ósáttur með varnarleikinn á móti Kára í lokin…hann er náttúrulega galdramaður…
“Við gerðum 2 mistök í fjórða, hann bara nýtir sér það um leið, hann er bara það góður, ef þú klikkar einu sinni þá klárar hann það…“
Já hann er alveg fáránlega góður að keyra á vinstri höndina og klára hátt af spjaldinu…það er erfitt að eiga við þetta…
“Jájá, hann er bara ógeðslega góður í því, það er bara þannig.“
Ég held að margir hafi séð fyrir sér fyrir þennan leik í ljósi þess hvernig Valsmenn fóru með ykkur í Garðabænum að Valsmenn myndu fylgja því eftir og vinna örugglega…það fór ekki þannig og þú hlýtur að vera sáttur með liðið þitt að mörgu leyti?
“Við komum aftur á mánudaginn, þessi sería er ekki búin. Við vinnum á föstudaginn og komum hingað aftur á mánudaginn.“
Sagði Arnar og fyrir þá sem ekki kunna að lesa á milli línanna stendur þar að Arnar hefur bullandi trú og það hafa liðsmenn hans líka. Þessi sería er ekki búin!