spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaStólarnir skrefi nær undanúrslitum - Geta sópað Keflavík í sumarfrí á miðvikudaginn

Stólarnir skrefi nær undanúrslitum – Geta sópað Keflavík í sumarfrí á miðvikudaginn

Það var sannkölluð úrslitakeppnisstemning í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld þegar Keflvíkingar mættu í leik 2 í viðureign liðanna í 8-liða úrslitum í Subway deild karla í körfuknattleik í kvöld. Tindastóll vann fyrstu viðureign liðanna eftir framlengingu í Keflavík og ljóst að gestirnir mættu með bakið upp við vegg. Páskafrí og vel mætt, líklega um 1500 manns í Síkinu.

Leikurinn fór fjörlega af stað, ekki síst varnarlega og ljóst að menn ætluðu að selja sig dýrt, hér yrðu engar körfur auðveldar. Tindastóll tók frumkvæðið snemma, voru komnir í 17-11 eftir 6 mínútur en Keflavík náði að svara, Tindastóll skaust í 28-21 þegar mínúta var eftir af fyrsta leikhluta og byrjuðu þann næsta með sniðskoti frá Taiwo sem var frábær í kvöld, 30-21. Keflvíkingar náðu þó fljótlega áttum og munaði þar miklu um að Hörður Axel fór að hitta þristum en fyrstu tvö skot hans hæfðu hvorki net né hring. Jaka setti líka niður góð skot og um miðjan leikhlutann var allt orðið jafnt 34-34. Stólar rykktu aftur frá en það voru gestirnir sem enduðu hálfleikinn sterkar og leiddu 43-45 í hálfleik.

Hörður Axel byrjaði seinni hálfleikinn með því að auka mun gestanna í 4 stig en þá sögðu Stólar hingað og ekki lengra og settu 19 stig á næstu 6 mínútum gegn aðeins 4 frá gestunum, staðan orðin 72-51 og Hjalti tók leikhlé. Hlutirnir löguðust aðeins hjá gestunum en Arnar Björnsson sá til þess að Stólar voru 21 stigi yfir fyrir lokaleikhlutann með 2 þristum. Munurinn hélst þetta 15-20 stig inn í fjórða leikhlutann og heimamenn í Tindastól voru ekki að fara að henda þessu frá sér. Þegar um 5 mínútur voru eftir fékk Jaka Brodnik brottrekstrarvillu eftir að hafa slegið leikmann Tindastóls í andlitið. Þristar frá Geks og Arnari og troðsla frá Ragga Ágústs gerðu svo endanlega út um leikinn og allt ætlaði um koll að keyra í Síkinu

Heimamenn spiluðu gríðarlega vel í seinni hálfleik og ljóst að þeir ætla sér langt í vor. Taiwo Badmus var frábær eins og áður segir, endaði með 25 stig og 7 fráköst og Keflavík gat lítið annað gert en að brjóta á honum og það gerðu þeir 11 sinnum í leiknum. Arnar Björnsson lék einnig vel, var 6/7 í þristum og óþolandi í vörninni, þegar drengurinn nær í þetta zone er enginn sem ræður við hann. Pétur var líka að gera gott mót, skilaði 15 stigum, 7 stoðsendingum og 5 fráköstum. Hjá gestunum var það einna helst Dominykas Milka sem var með lífsmarki, setti 17 stig.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -