Gnúpverjar tóku á móti Vestra í Fagralundinum í Kópavogi í dag í 1. deild karla. Vestri hafði á föstudaginn unnið Breiðablik á Ísafirði á meðan að Gnúpverjar höfðu tapað seinast gegn Blikum einmitt í Fagralundinum fyrir viku síðan. Ljóst var að Vestramenn væru ekki úthvíldir en það aftraði þeim ekki frá því að landa sigrinum.
Vestri hóf leikinn betur og komust fjótt í 10 stiga forystu áður en Maté Dalmay, þjálfari Gnúpverja, tók leikhlé og skammaði sína menn fyrir að hafa ekki mætt til leiks á réttum tíma. Gnúpverjar tóku sig á og fóru að skora en þá voru Vestramenn þegar komnir á bragðið og héldu áfram að skora. Leikhlutanum lauk 17-31, Ísfirðingunum í vil.
Gnúpverjar náðu að laga stöðuna í öðrum leikhlutanum með því að hitta úr nokkrum þristum og takmarka sóknarfráköst gestanna. Heimamenn voru líka duglegir að keyra í bakið á Vestramönnum eftir skoraða körfu og skora meðan gestirnir voru enn uppteknir við að fagna því að hafa skorað. Það dugði ekki til að þeir næðu forystunni og Vestri lokaði fyrri hálfleiknum 44-51.
Hálfleikshléið virtist ekki gott fyrir heimamenn þar sem að Vestri hóf seinni hálfleiknum á því að taka 13-3 áhlaup á fyrstu fimm mínútunum. Gnúpverjar tóku sig aðeins á seinni fimm og skoruðu 7 stig gegn 6 stigum hjá Vestra en skaðinn var þá skeður. Gnúpverjar áttu ágætan lokafjórðung en það reyndist ekki nóg til að vinna upp muninn alveg. Leiknum lauk 85-96, Vestra í vil.
Þáttaskil
Munurinn á liðunum var í upphafi beggja hálfleikja, en Vestri byggði upp 10 stiga forystu í bæði skiptin og ekkert áhlaup Gnúpverja gat saxað nægilega á það. Heimamenn voru einfaldlega of seinir í gang í báðum hálfleikjum.
Tölfræðin lýgur ekki
Vestri vann leikinn á vítalínunn með því að hitta úr 8 fleiri vítaskotum þrátt fyrir að eiga verri nýtingu frá vítalínunni, en Gnúpverjar hittu 18/24 (75%) í vítum á meðan að Vestramenn hittu 24/36 (67%). Flest vítin komu frá Knezevic-bræðrunum Nemanja og Nebojsa (10 og 9 víti), sem eru samt ekki skyldir og raunar af tvennum ólíkum þjóðernum. Ofan á þetta þurftu Vestramenn 10 færri skot utan af velli (69 vs. 79) til að hitta úr tveimur fleiri skotum (31 vs. 29).
Hetjan
Nemanja og Nebojsa Knezevic áttu báðir góðan leik en þeir nutu dyggrar aðstoðar Nökkva Harðarsonar og Ingimars Arons Baldurssonar. Allir fjórir skoruðu 19 stig eða fleiri og gerðu vörn Gnúpverja erfitt fyrir. Nemanja skoraði 22 stig, Nebojsa 20, Nökkvi 20 og Ingimar 19. Nemanja tók 19 fráköst og Nebojsa tók 12. Nebojsa var annan leikinn í röð einni stoðsendingu frá því að ná þrefaldri tvennu með 9 stoðsendingar.
Kjarninn
Þá hefur Vestri loks unnið sinn fyrsta útileik á meðan að Gnúpverjar eru ennþá í vandræðum með að skora með öðrum ráðum en að treysta á erlenda leikmanninn sinn. Gnúpverjar eiga leiki gegn ÍA og FSu framundan og þurfa nauðsynlega að ná tveimur sigrum fyrir jól ef þeir vilja blanda sér í úrslitakeppnisumræðuna. Vestri eiga tvo útileiki eftir fram að jólum gegn FSu og Fjölni og geta komið sér í góða stöðu með því að klára 2017 með tveimur útisigrum í viðbót.
Tölfræði leiksins
Viðtöl eftir leik:
Umfjöllun / Helgi Hrafn Ólafsson