Topplið Vals átti ekki í teljandi vandræðum með Njarðvík í kvöld þegar þær heimsóttu Ljónagryfjuna. Valur náðu að skora 82 stig gegn 63 stigum heimaliðsins og þar við sat. Valur leiddi hálfleik með 13 stigum.
Strax í upphafi leiks tóku Valur völdin á leiknum og eftir fyrsta fjórðung höfðu þær komið sér í 6 stiga forystu. Það tók þær þó smá tíma að hrista Njarðvík almennilega af sér en hittni liðsins í fyrri hálfleik var mjög góð og í raun lítið sem Njarðvík gat gert við því. Á meðan voru Njarðvík að fara afar illa með knöttinn og hvað eftir annað gerðust þær sekar um að hreinlega kasta boltanum útaf vellinum á einn eða annan hátt. Sem fyrr segir voru það 13 stig sem skildu liðin í hálfleik.
Í þriðja leikhluta bitu Njarðvíkurstúlkur frá sér og voru grimmari í sínum aðgerðum. Það hinsvegar var aðeins öðrumegin á vellinum því varnarleikur þeirra dugði skammt þó svo að sóknarleikurinn hafi verið með ágætum. Valur hélt sínu striki og skoruðu nokkuð auðveldar körfur á meðan Njarðvík þurfti að hafa meira fyrir sínu. Í fjórða leikhluta og í raun undir lok þess þriðja hlóðu Njarðvík í svæðisvörn sem hægði vel á Valsstúlkum. Svo mikið að þær áttu í basli með að koma boltanum að körfunni. Blessunarlega fyrir þær þá voru þriggjastiga skotin að detta niður og því reddaðist þetta. Lokaspretturinn var svo aldrei spennandi, Njarðvík náðu muninum mest niður í 15 stig og því auðveldur og verðskuldaður sigur Vals rauninn.
Valsliðið er gríðarlega vel mannað og þjálfað og í raun engin heppni sem skilar liðinu á toppinn. Þjálfarinn að öllu jöfnu yfirvegaður í sínum aðgerðum og leikmenn spila nokkuð einfaldan en áhrifaríkann körfuknattleik. Valsliðið til alls líklegt þetta tímabililð en því má ekki gleyma að deildin er mjög jöfn. Njarðvíkurliðið er langt frá því að vera svo slakt eins og taflan segir til um. Það virðist vera einhver ákveðin þröskuldur sem þær þurfa að komast yfir til að ná sínum fyrsta sigri í deildinni. Maður hefði haldið að sá þröskuldur hafi komið þegar þær slógu út Stjörnuna í bikarnum þar sem þær spiluðu fanta góðan liðsbolta og það voru brosandi andlit út um allan völl. En þær hafa ekki náð að fylgja því eftir en þurfa svo sannarlega að gíra sig upp því næsti leikur þeirra er gegn Breiðablik í bikarnum einmitt.