Ég ætla að byrja á því að bjóða sjálfan mig velkominn aftur á ritvöllinn. Ástæða ritþurrðarinnar er einfaldlega sú að ég hef verið í verkfalli. Launakjör mín fyrir þessa pistla eru auðvitað í hrópandi ósamræmi við þá miklu ábyrgð sem ég ber á faglegri umfjöllun um íslenskan körfubolta. Líkt og aðrir sem eru í ábyrgðafullri stöðu ákvað ég þó að fresta verkfallinu yfir jólahátíðina og gleðja þannig samborgara mína…
Talandi um flugvirkja. Það er ljóst að flestir þjálfarar körfuboltaliða á Íslandi eru sáttir með að samningar hafi náðst milli Icelandair og flugvirkja. Nokkrir þeirra voru á barmi taugaáfalls enda hræddir um að kanarnir þeirra kæmust ekki til Íslands í tæka tíð fyrir fyrsta leik í janúar, hvort sem það var vegna þess að þeir eru nokkurn veginn þeir einu sem gátu eitthvað í liðinu eða voru langbestu kanar deildarinnar. En við skulum ekki bara einbeita okkur að Hetti og ÍR. Þó flestir hafi fagnað er líklega einn þjálfari sem vonaðist eftir því að verkfallið stæði yfir fram á vor. Það er Friðrik Ingi, þjálfari Keflavíkur, því Keflavík er líklega eina liðið í Domino´s deildinni sem er betra þegar kaninn er á bekknum. Friðrik vinur minn getur þó tekið ýmislegt jákvætt út úr þessu því það góða við erlendu leikmennina sem hingað koma er að skilafrestur þeirra er mun rýmri en skilafrestur almennra verslunaravara á þessu guðsvolaða landi. Það má skila erlendum leikmönnum nokkrum vikum, jafnvel mánuðum eftir kaupdag. Kaupmenn þessa lands bjóða ekki upp á slíkan munað. Þeir selja fátækum landanum vörur í jólagjafapakkann dýrum dómi og ákveða af einskærri „góðmennsku“ sinni að hafa skilafrestinn á vörunni það nauman að hamborgarhryggurinn er varla farinn að stinga sér til sunds niður vélindað þegar fresturinn er runninn út. Hvar er stofnunin Gísli Tryggvason þegar við þurfum á honum að halda?
Annars er staðan í Domino´s deildunum ef til vill nokkuð öðruvísi en menn spáðu fyrir þó það hefði auðvitað mátt búast við spennu og jöfnum deildum beggja megin. Aldrei þessu vant er til dæmis KR ekki á toppi Domino´s deildar karla. Þeir vita það þó að Íslandsmeistaratitillinn vinnst ekki fyrr en í vor, öfugt við kvennalið Vals þar sem leikmenn og þjálfari tjá nú öllum, bæði á twitter og í jólakveðjum á Karfan.is, að það sé rosalega kalt á toppnum. Við skulum nú vona að þær fái smá yl um jólin svo þær frjósi nú ekki úr kulda og skelfingu þegar kemur að alvöru úrslitaleikjum…
Að lokum vona ég bara að sem flestir skólastrákar- og stúlkur og atvinnumenn- og konur sem rata á skerið okkar yfir jólahátíðina til að njóta jóla og áramóta í faðmi fjölskyldunnar haldi kyrru fyrir og spili frekar í Domino´s deildunum eftir áramót en að fara aftur á vit ævintýranna. Við þurfum á ykkur að halda til að glæða okkar grámyglulega skammdegi lífi og lyfta deildunum upp á æðra plan, a.m.k. fram á næsta ár þegar austurevrópskir fjarkar verða fluttir hingað inn í hrönnum og menn eins og Ágúst Angantýsson og Þorsteinn Finnbogason hætta að fá greidd flugvirkjalaun fyrir að spila körfubolta. Hvernig er það annars, er ekki hægt að fara fram á farbann á okkar besta körfuboltafólki á grundvelli almannahagsmuna körfuboltafjölskyldunnar? Nei, það eru kannski litlar líkur á því – eru ekki annars flugvallarstarfsmenn, flurvirkjar, flugstjórar og/eða flugfreyjur að fara í verkfall fljótlega aftur?
Jólakveðja,
Sævar Sævarsson