Í fyrsta hlaðvarpi okkar um 1. deild karla tímabilið 2018-2019 förum við yfir öll liðin í deildinni og hvað öll lið hafa til brunns að bera. Við byrjum á botninum með Snæfelli og ræðum framtíð þeirra og tölum svo um Sindra og það hvað liðið er með óvinsæla staðsetningu á landinu.
Nágrannaliðin á Selfossi og í Hveragerði eru borin saman og við ræðum nýja þjálfara þeirra beggja. Selfoss hefur skipt um heimavöll og eru núna í Vallaskóla og við veltum fyrir okkur hvort að þeir séu í raun og veru betri á útivelli en heima fyrir. Vestri, sem bætti við sig Jure Gunjina skömmu eftir upptöku þessa hlaðvarps, er rætt og við tölum um tvo tapleiki þeirra á heimavelli. Þeir girtu sig þó í brók eftir seinna tapið og unnu úrvalsdeildarlið Hauka í 16-liða úrslitum Geysisbikarsins.
Við ræðum feikisterkt lið Fjölnis og gengi þeirra ásamt því hve nálægt þeir komust því að sigra Tindastól í bikarkeppninni. Höttur og Þór Akureyri virðast fyrir okkur vera liðin sem munu berjast um toppsætið og við ræðum hvort að Þór gæti ekki unnið nokkur úrvalsdeildarlið í neðri sætunum. Að lokum spáum við fyrir um næstu leiki í deildinni. Við stefnum síðan á að taka upp annan þátt um 1. deild karla í janúar! Njótið vel!
Umsjón: Helgi Hrafn Ólafsson og Axel Örn Sæmundsson
00:00:30 – Podcastið kynnt og Malt & Appelsín rætt
00:01:30 – Snæfell vermir botninn og líta ekki mjög vel út.
00:06:15 – Sindri kominn upp í fyrstu deild! Hvað nú?
00:12:05 – Selfoss hefur nýjan heimavöll, nýjan þjálfara og eru illvígir í útileikjum
00:21:05 – Hamar með nóg af nýjum mannskap en gætu þeir verið ofar?
00:29:20 – Vestri í fjórða sæti en heimavöllurinn ekki nógu sterkur.
00:36:10 – Fjölnismenn góðir en ; gamlir og góðir stólpar komnir aftur
00:47:30 – Höttur á fínum stað en Suðurlandið er eitthvað að stríða þeim
00:54:10 – Þór Akureyri gæti tekið sum úrvalsdeildarliðin í botnsætinu
01:01:35 – Spár um næstu 4 leiki í deildinni fyrir jólafríið