spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaValur með sigur á toppliði Keflavíkur - Upp og niður leikur í...

Valur með sigur á toppliði Keflavíkur – Upp og niður leikur í Origo-höllinni

Valur tók á móti Keflvíkingum í Origo-höllinni að Hlíðarenda í kvöld í lokaleik 12. umferðar í úrvalsdeild kvenna. Fyrir leikinn hafði Keflavík unnið 9 leiki í röð og voru efstar í deildinni á meðan að Valsstúlkur voru í 5. sæti með 5 sigra í 11 leikjum. Liðin voru ótrúlega mistæk og eftir að Valur hafði byggt upp magnað forskot í fyrri hálfleik náðu þær rétt svo að standa af sér áhlaup Keflvíkinga í lokaleikhlutanum og vinna 101-94.

Gangur leiksins

Fyrstu mínúturnar var lítið skorað en eftir að liðin höfðu hitnað aðeins settu Valsstúlkur í lás í vörninni og úr stöðunni 19-14 skoraði Valur næstu 13 stig leikhlutans án þess að Keflavík gæti svarað með einu einasta stigi. Valur var að spila góða vörn og sókn og virtust hárrétt stilltar inn á leikinn á meðan að Keflavíkurstúlkurnar voru ólíkar sjálfum sér vegna varnar Valsstúlkna. Staðan 32-14 eftir 10 mínútur.

Valur hélt áfram að stoppa leikmenn Keflavíkur í sporunum og þó að Keflavík hafi náð að skora aðeins meira í næsta leikhluta og skora 20 stig þá gátu þær ekki stoppað sóknarleik Vals. Heimaliðið var farið að rúlla og setti 35 stig í viðbót fyrir hálfleikshléið. Staðan var því 67-34 í hálfleik og ljóst að Keflavík átti á brattann að sækja.

Keflavíkurstúlkur komu aðeins beittari inn í seinni hálfleikinn og hófu að saxa forskotið niður. Það gekk heldur hægt, enda 33 stig sem þurfti að vinna upp og eftir þriðja leikhluta höfðu þær unnið upp 5 stig og staðan 83-55. Leikurinn var ekki spennandi að sjá en það átti eftir að breytast í lokaleikhlutanum.

Í fjórða leikhluta vöknuðu Keflvíkingar all harkalega og fóru að spila vörn og sókn af mikilli áfergju. Valsstúlkur virtust slegnar út af laginu enda átti leikurinn að vera búinn en svo var alls ekki. Brittany, Írena Sól og Birna Valgerður settu upp smá skotsýningu og hittu allar úr tveimur þristum ásamt því að aðrar úr liðinu skoruðu eina og eina körfu. Keflavík skoraði 39 stig í lokafjórðungnum en náði samt að tapa með 7 stigum, 101-94.

Lykillinn

Helena Sverrisdóttir og Heather Butler reyndust mjög drjúgar fyrir Val, en ásamt því að leiða sóknina hjá sínu liði þá slökktu þær á Bryndísi Guðmundsdóttur og Brittany Dinkins á stórum köflum í fyrri hálfleiknum til að byggja upp þetta óyfirstíganlega forskot. Helena lauk leik með 19 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar og +26 stig í plús/mínus á meðan að Heather skoraði 21 stig, tók 5 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Hjá Keflavík var Brittany Dinkins framlagshæst (37 í framlag) með 32 stig, 7 fráköst, 9 stoðsendingar og 4 stolna bolta.

Tölfræðin

Merkilegasta tölfræði leiksins var stigaskor liðanna milli leikhluta: 32-14, 35-20, 16-21, 18-39. Valur hitti úr 70,3% skota sinna utan af velli í fyrri hálfleik en aðeins 35,3% í þeim seinni á meðan að Keflavík hitti úr 34,4% af skotum sínum utan af velli í fyrri hálfleik en 57,6% í seinni hálfleik. Ótrúlegt kúvending tveggja liða milli tveggja hálfleikja.

Kjarninn

Valsstúlkur mættu rosalega beittar í fyrri hálfleik og hreinlega slátruðu Slátrurunum. Suðurnesjastelpurnar voru ekki undirbúnar fyrir vörn Valsara og það verður að teljast magnað að þær skori 21 fleiri stig en heimastúlkur í lokaleikhlutanum og tapa samt.

Samantektin

Keflavík er ennþá á toppi deildarinnar með jafn mörg stig og Snæfell en vinna á innbyrðis viðureignum. Þær náðu að klóra sig til baka í þessum leik með hörkugóðum leikhluta en ættu mögulega að hafa áhyggjur af því að hafa verið stöðvaðar svona vel í fyrri hálfleik. Valur er núna komið með 6 sigra í 12 leikjum og sitja í 5. sæti á eftir Stjörnunni, sem að þær eiga í næsta leik. Þær hafa sýnt hvað þær eru góðar gegn toppliðinu en verða að vera aðeins stöðugari gegnum einn leik ef að þær ætla sér titilinn í ár.

Tölfræði leiksins

Viðtöl eftir leik

Umfjöllun / Helgi Hrafn Ólafsson
Viðtöl / Davíð Eldur
Fréttir
- Auglýsing -