Egilsstaðafélagið Höttur losaði leikmann sinn Pranas Skurdauskas undan samningi við félagið. Þetta segir í tilkynningu sem liðið sendi frá sér í kvöld.
Í tilkynningu Hattar segir að Pranas hafi verið uppvís að ofbeldisfullri hegðun og kom mál hans til meðferðar hjá lögreglu. Samkvæmt heimildum Körfunnar er mál leikmannsins alvarlegt en málsatvik eru ekki staðfest.
Þá segir einnig í tilkynningu körfuknattleiksdeildar Hattar: „Körfuknattleiksdeild Hattar fordæmir hegðun leikmannsins sem samræmist í engu gildum og reglum deildarinnar. Liðið undirbýr nú mikilvæga leiki í 1. deildinni en leggur ekki gildin til hliðar, harmar atvikið og hefur gripið til viðeigandi ráðstafana.“
Pranas Skurdauskas kom til Hattar fyrir tímabilið og hefur verið með 10,3 stig og 9,3 fráköst að meðaltali í 1. deild karla.