spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÍvar: Það þarf einhver að slá Kidda út úr liðinu

Ívar: Það þarf einhver að slá Kidda út úr liðinu

Ívar Ásgríms var gríðarlega ánægður með sína stráka að leikslokum eftir sigurinn á Keflavík:

Nú komu loksins fjórir góðir leikhlutar hjá ykkur?

Já, það hlaut að koma að því! Ég var nú kannski ekkert hoppandi bjartsýnn fyrir þennan leik, við erum í miklum meiðslavandræðum. Ég kallaði á gamla (Kristinn J.) inn og hann stóð sig frábærlega. Hann er fyrirmyndar Haukamaður og hann svarar kallinu. Hann gerði nákvæmlega það sem við ætluðumst til af honum og meira en það því hann hitti skotinu sínu!

Varnarleikurinn hjá okkur var frábær í kvöld. Við héldum haus allan tímann, við vorum á fótunum og vorum ekki að láta gabba okkur út í einhverja vitleysu. Við lokuðum öllum leiðum hjá þeim og þá urðu þeir staðir.

Maður sá það nánast frá fyrstu sekúndu að þið voruð með gott skipulag varnarlega sem gekk upp. Þið fóruð 2 eða jafnvel 3 á Craion og gerðuð það vel. Þú ert væntanlega ánægður með hversu vel liðið framkvæmdi skipulagið?

Jújú, við vorum búnir að fara yfir það hvernig við ætluðum að spila á móti þeim. Ég er ekki öðruvísi en aðrir þjálfarar með það sem skipuleggja sig vel fyrir alla leiki að það eina sem maður þarf að hafa áhyggjur af er hvort leikmenn fara eftir því sem maður er búinn að setja upp eða ekki. En mér fannst sóknin hjá okkur í kvöld líka rosalega góð.

Já, fyrir utan kannski upphafsmínúturnar?

Við vorum smá hikandi en svo bara smátt og smátt kom það. Við höfum verið gagnrýndir fyrir það að okkur vanti leikstjórnanda. Arnór og Daði voru gersamlega frábærir í kvöld og þeir hafa báðir verið stigvaxandi hjá okkur, þeir eru farnir að leiða liðið og gera fá mistök. Ég er gríðarlega sáttur með þá. Svo erum við með Hilmar þarna líka sem getur hjálpað okkur að setja upp. Við höfum frekar verið í vandræðum í kringum teiginn vegna meiðsla en vonandi er stutt í þessa tvo sem hafa verið úti. Þeir þurfa reyndar jafnvel að vinna sér inn sæti í liðinu!

Já, mér sýnist það, Kiddi J. var flottur! Þið farið ekkert að sleppa honum…

Neinei, það þarf einhver að slá Kidda út úr liðinu!

Nú er kannski bara málið fyrir ykkur að ofmetnast ekki eftir þennan flotta sigur eins og vill oft gerast?

Jájá, við höfum vonandi lært af ÍR leiknum sem dæmi þar sem við vorum hræðilegir og svo má nefna annan leikhlutann gegn KR og fleiri þar sem við höfum verið með hausinn niðri og ekki að leggja okkur fram. Við erum bara eins góðir og við nennum, ef við leggjum okkur fram og gerum þetta saman erum við góðir, annars ekki!

Meira má lesa um leikinn hér.

Viðtal: Kári Viðarsson

Fréttir
- Auglýsing -