KR-ingar fengu heimsókn frá Grindavík í áttundu umferð Dominos-deildarinnar í kvöld. Gestirnir komust snemma í snertingu við botninn á leiktíðinni og sækja upp á við með Bamba og Clinch innanborðs. KR-ingar vita hins vegar ekkert hvernig botninn lítur út enda eiga þeir hauka í horni í öllum heimshlutum og landsliðsmenn sækja til þeirra eins og mý að mykjuskán.
Spádómskúlan: Í stuttu spjalli okkar kúlunnar hafði hún þetta að segja: ,,Ha, ertu að biðja um spádóm fyrir KR-leik?? Huh…KR vinnur…“. Svo mörg voru þau orð en ég innti hana eftir tölum: ,,Meh…93-77…“ þvældi hún út úr sér. Þar hafið þið það.
Byrjunarlið:
KR: Jón, Boyd, Kristó, Emil, Bjössi
Gri: Sarnar, Bamba, Clinch, Óli, Kuiper
Gangur leiksins
Það var undarlega rólegt yfir öllu í byrjun leiks og engu líkara en að menn hefðu ekki að miklu að keppa. Varnarleikur liðanna var svo gott sem enginn og liðin hefðu kannski átt að semja um að keppa bara í asna um stigin tvö! Leikurinn var þó ágætis skemmtun og flottar körfur litu dagsins ljós. Heimamenn leiddu framan af en gestirnir skutu sér fram úr eftir því sem á leið fyrsta leikhluta og leiddu 26-29 að honum loknum.
Vafalaust hafa þjálfarar beggja liða beðið sína menn um eilítið meiri stemmningu og baráttu varnarlega í öðrum leikhluta og það voru frekar leikmenn gestanna sem hlustuðu. Baráttan var öllu meiri hjá gestunum og Clinch var heitur sóknarlega. Grindvíkingar leiddu allan leikhlutann, mest 38-50 þegar ein og hálf mínúta var til leikhlés. KR-ingar áttu hins vegar síðustu 5 stigin fyrir pásu og staðan 43-50 í hálfleik. Plötuþeytir DHL-hallarinnar hafði greinilega þungar áhyggjur af stemmningsleysi sinna manna og bauð upp á Todd Terje í hálfleik í von um að hressa sína menn.
Það var sjálfgefið að heimamenn myndu gera tilraun til að mæta grimmir til síðari hálfleiks og hver hefur ekki séð KR-inga einmitt gera það, setja í fimmta og keyra yfir andstæðinga sína? Það gerðist hins vegar alls ekki. Helst var Jón Arnór að gera sig breiðan fyrir KR-inga en gestirnir voru þéttari fyrir varnarlega eftir því sem á leið og fundu alltaf reglulega svör sóknarlega. Clinch er alltaf rétti maðurinn sama hvað hver segir og svaraði Jóni með 5 stigum í röð og glæsilegri stoðsendingu sem endaði með körfu góðri og víti frá Kuiper. Þá var staðan 55-72 og að leikhlutanum loknum var staðan 60-74.
Heimamenn blésu í herlúðra í upphafi fjórða, varnarleikurinn minnti eilítið á varnarleik hjá liðinu og KR-ingar áttu fyrstu 4 stig leikhlutans. Arnar setti þá þrist fyrir gestina og það virtist duga til að troða upp í herlúðrana. Kuiper setti svo annan mikilvægan þrist fyrir Grindavík nokkru síðar og alltaf héldu gestirnir 10-14 stiga forystu. Næst komust heimamenn gestunum í stöðunni 75-84 þegar fjórar mínútur voru eftir. Það er auðvitað nægur tími en einni og hálfri mínútu síðar leiddu gestirnir 75-88 og jafnvel fimmfaldir meistarar KR-inga náðu ekki að brúa það bil. Lokatölur urðu 85-95 og frábær sigur Grindvíkinga staðreynd.
Menn leiksins
Clinch var frábær í þessum leik. Hann setti 25 stig og tók 5 fráköst. Kuiper hefur farið vaxandi hjá liðinu og setti 22 stig, tók 5 fráköst og gaf 5 stoðsendingar.
Kjarninn
KR-ingar virkuðu afar andlausir í þessum leik og náðu aldrei að rífa sig í gang. Oft hefur maður séð KR-liðið værukært í byrjun leikja en samt landað öruggum sigrum að lokum. Því var ekki að heilsa í kvöld. Liðið hefur vissulega verið að breytast í sífellu það sem af er og ljóst að þegar þessi mannskapur hefur slípað sig saman og fundið andann er sennnilega engu að kvíða fyrir KR-inga.
Grindvíkingar fundu botninn snemma tímabils eins og segir í inngangi. Það er gott að spyrna sér af botninum og nýjustu liðsmenn þeirra, Bamba og Clinch, eru ekki rangir leikmenn fyrir neitt lið. Jóhann Þór veit hins vegar vel, rétt eins og Fannar Ólafs, að ekkert lið vinnur titil í nóvember og engin ástæða til að ofmetnast þrátt fyrir allt. Sigurinn er samt sem áður afar glæsilegur og Grindvíkingar geta farið brosandi inn í helgina.
Umfjöllun: Kári Viðarsson