Næstkomandi föstudag tekur meistaraflokkur karla á móti Breiðablik í 8. umferð Domino‘s deildarinnar. Allur ágóði af miðasölu á leikinn mun renna til Útmeða, forvarnarverkefnis Geðhjálpar og Rauða Krossins.
Seinast þegar þessi lið mættust var í úrslitakeppni 1.deildar árið 2017, en þá fór sería liðanna í oddaleik. Leikirnir voru allir hörkuspennandi, hágæða skemmtun og líklegt er að það sama verði uppá teningnum núna á föstudaginn, þar sem leikurinn skiptir bæði lið gríðarlegu máli!
Fyrir þá sem ekki þekkja til Útmeða, þá er markmið verkefnisins að stuðla að bættri geðheilsu meðal almennings með því að hvetja fólk, með sérstakri áherslu á ungt fólk, til að tjá sig um andlega líðan sína og leita sér faglegrar aðstoðar þegar á þarf að halda. Verkefnið er brýnt, m.a. með hliðsjón af því að á bilinu 500 til 600 manns leita sér aðstoðar á heilsugæslustöðvum og í sjúkrahúsum á Íslandi vegna sjálfskaða í kjölfar vanlíðanar á hverju ári. Sjálfsvíg eru algengasta dánarorsök ungra karlmanna á Íslandi.
Endilega látið sjá ykkur á föstudaginn, upplifið góða skemmtun og styðjið gott málefni.