Leikmaður KR b, Finnur Atli Magnússon, hefur verið boðaður á æfingu hjá aðalliði KR. Staðfestir leikmaðurinn þetta í samtali við Körfuna. Hvert svo framhaldið á því verði er hann ekki viss með, en um málið hafði hann þetta að segja.
“Var boðaður á æfingu hjá “hinu liðinu” eftir stórkostlega frammistöðu með KR-B síðastliðinn laugardag. Hvort ég komist i liðið verður bara að koma i ljós”
Finnur hefur verið búsettur í Ungverjalandi síðastliðin misseri með konu sinni Helenu Sverrisdóttur. Samkvæmt fregnum dagsins gætu þau bæði verið á leiðinni heim, en Finnur fékk félagaskipti sín úr Haukum í gegn í byrjun tímabils.
Ljóst er að fari svo að Finnur spili eitthvað með aðalliði KR í vetur, þá er um mikinn liðsstyrk að ræða fyrir Íslandsmeistarana. Á síðasta tímabili skilaði Finnur 9 stigum, 7 fráköstum og 3 stoðsendingum að meðaltali í 30 leikjum með Haukum.