Helena Sverrisdóttir er án liðs þessa stundina eftir að hafa rift samningi sínum við ungverska liðið Cegléd. Fréttablaðið greinir frá þessu í hádeginu.
Þar segir hún að Cegléd EEK hafi ekki staðið við gefin loforð og hún hafi nú fengið sig lausa frá liðinu. Hún er stödd á Íslandi þar sem hún undirbýr sig fyrir landsleikina sem framundan eru gegn Bosníu og Slóvakíu.
Helena segir óljóst hvað taki við hjá sér en útilokar ekki að snúa heim. Árangur Cegléd hafi ekki verið góður en liðið situr í níunda sæti deildarinnar. Þá er liðið enn án sigurs í evrópukeppninni en Helena var atkvæða mest fyrir liðið þar. Þjálfari liðsins hætti fyrir stuttu en Helena þekkti vel til hans.
Forvitnilegt verður að vita hvar Helena endar en ljóst er að ef hún ákveður að snúa heim í Hauka gæti það breytt Dominos deildinni gríðarlega. Haukar sitja í sjöunda sæti deildarinnar með tvo sigra en sá síðasti kom þann 17. október síðastliðinn.