Boðið var upp á naglbít í Síkinu í kvöld þegar Tindastóll tók á móti Grindavík í Dominos deild karla í körfuknattleik. Síðustu leikir liðanna höfðu farið misjafnlega, Grindavík lagði Keflavík í frábærum leik suður með sjó í bikarnum en Tindastóll tapaði fyrir KR á útivelli í deildinni áður en þeir burstuðu svo Reyni Sandgerði í bikarnum. Menn áttu því von á spennandi leik í Síkinu og sú varð sannarlega raunin.
Gestirnir úr Grindavík byrjuðu leikinn mjög sterkt og mun betur en heimamenn sem hittu illa og tóku slæmar ákvarðanir í sókninni þó varnarleikurinn hafi verið sæmilegur. Gestirnir leiddu eftir fyrsta fjórðung með 11 stigum eftir þrist frá Bamba og hraðaupphlaup þar sem Jóhann Árni lagði sniðskot þegar 3 sekúndur voru eftir. Heimamenn girtu sig í brók í öðrum leikhluta og náðu að jafna og komast yfir 32-30 þegar um tvær og hálf mínúta voru eftir. Síðan var eins og úthaldið brygðist og gestirnir náðu 12-0 kafla sem endaði á troðslu Kuiper á lokasekúndunni. Tíu stiga munur 32-42 í hálfleik og mómentið allt með gestunum.
Áhorfendur í Síkinu voru þó ekki á því að gefast upp og hvöttu sína menn ákaft áfram og sem betur fer brugðust þeir við, fóru að spila mjög aggressíva vörn og náðu að stilla miðið betur af í sókninni. Grindavík skoraði ekki nema 3 körfur utan af velli í fjórðungnum en Kuiper og Arnar Björnsson sem kominn var heim í Síkið sölluðu niður nokkrum vítum og staðan var jöfn eftir 3ja leikhluta 57-57.
Tindastóll byrjaði lokaleikhlutann af krafti og skoraði fyrstu 8 stigin og staðan orðin 65-57 þegar 3 mínútur voru liðnar. Þá tók Óli leikhlé og Grindavík náði að setja fyrir lekann. Næstu mínútur voru stál í stál en heimamenn héldu þó forystunni sem komst í 6 stig þegar King setti niður víti. 3 mínútur voru eftir þegar Clinch jr. hlóð í þrist og heimamenn köstuðu boltanum nánast strax frá sér í hendurnar á Óla Óla sem þakkað pent og tróð í andlit Tindastóls eins og hann einn getur. Næsta sókn heimamanna var góð og endaði með þristi frá Brynjari í horninu, 69-65. Kuiper kom muninum aftur í 1 stig með þristi en Pétur Rúnar svaraði með tveimur vítum þegar 47 sekúndur voru eftir. Heimamenn spiluðu fasta vörn og þegar gestirnir tóku boltann inn varð samstuð milli leikmanna og einhvernveginn fengu dómarar leiksins það út að um væri að ræða óíþróttamannslega villu á Danero Thomas. Arnar Björnsson var svellkaldur á línunni, setti bæði skotin niður og munurinn aftur 1 stig, 71-70 og ennþá 47 sekúndur eftir! Gestirnir stilltu upp í sókn sem endaði á skoti Arnars en Pétur Rúnar gerði sér lítið fyrir og varði skot hans. Heimamenn vildu þó gefa gestunum einn séns enn og köstuðu boltanum frá sér þegar enn lifðu 23 sekúndur en vörnin hélt og Tindastóll fagnaði gríðarlega harðsóttum sigri.
Eins og sést á tölunum var leikurinn ekki mikið fyrir augað sóknarlega séð en baráttan því meiri og spennustigið hátt. Urald King var eini maðurinn á vellinum sem skoraði yfir 20 stig, hann skilaði 23 stigum og 14 fráköstum. Brynjar og Danero Thomas komu næstir með 12 stig og Danero reif að auki niður 8 fráköst. Hjá gestunum var Jordy Kuiper mest áberandi með 17 stig og 9 fráköst en stigaskorið dreifðist mun jafnar hjá gestunum.
Mynd: Urald King ver skot Tiegbe Bamba með tilþrifum.
Pétur Rúnar leikmaður Tindastóls eftir leik: