Keflvíkingar sem hafa unnið síðustu 4 leiki í deildinni, en voru rassskelltir af Grindvíkingum í bikarnum, tóku á móti Breiðablik sem unnu fyrsta leikinn sinn í síðustu umferð í kvöld. Keflvíkingar spiluðu án Mantas Mockevicius og Ágúst Orrasonar. Hjá Blikum vantaði Þorstein Finnbogason.
Fyrsti leikhluti einkenndist af töpuðum boltum og lélegum ákvörðunum hjá báðum liðum. Staðan að loknum fyrsta leikhluta 18 – 21. Blikar byrjuðu annan leikhluta á 6 stiga sókn. Bættu svo við tvist og vítaskoti í næstu sókn og voru því 0 – 9 fyrstu mínútu annars leikhluta. Gestirnir voru heilt yfir betri í öðrum leikhluta, staðan í hálfleik 39 – 44.
Blikar byrjuðu þriðja leikhluta mun betur en heimamenn. Eftir rúmar 4 mínútur voru þeir komnir 12 stigum yfir. Sverrir Þór tók þá leikhlé og eftir það rönkuðu heimamenn aðeins við sér, Hörður Axel setti niður 9 stig í röð og Keflvíkingar átu svo upp forskot Blika, staðan að loknum þriðja leikhluta 67 – 62. Keflvíkingar byrjuðu fjórða leikhluta betur, Blikar héngu aðeins í þeim en það voru heimamenn sem að lokum kláruðu leikinn 88 – 80.
Byrjunarlið:
Keflavík: Hörður Axel Vilhjámsson, Magnús Már Traustason, Reggie Dupree, Gunnar Ólafsson og Michael Craion
Breiðablik: Christian Covile, Snorri Hrafnkelsson, Arnór Hermansson, Erlendur Ágúst Stefánsson og Snorri Vignisson.
Þáttaskil:
Blikar litu vel út þar til Keflvíkingar vöknuðu til lífs í þriðja leikhluta. 9 stig í þrem sóknum í röð frá Herði Axel auk mikillar baráttu Guðmundar Jónssonar sneri leiknum Keflvíkingum í vil.
Tölfræðin lýgur ekki:
Heimamenn hittu miklu betur úr tveggja stiga skotum en gestirnir 61% – 35%.
Hetjan:
Michael Craion var bestur Keflvíkinga með 26 stig, 10 fráköst og 34 í framlag. En Hörður Axel Vilhjálmsson með 22 stig, 6 fráköst, 7 stoðsendingar og 26 í framlag var maður leiksins, hann reif Keflvíkinga í gang þegar þeir þurftu mest á því að halda.
Kjarninn:
Jafnvel þó Keflvíkingar hafi ekki átt sinn besta leik og Blikar spilað ágætlega framan af þá voru gæði heimamanna einfaldlega of mikil fyrir gestinna.
Viðtöl eftir leik: