spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaStjarnan hafði betur í grannaslagnum - Sanja flott fyrir Blika

Stjarnan hafði betur í grannaslagnum – Sanja flott fyrir Blika

Stjarnan tók á móti Breiðablik í 7. umferð Domino’s deildar kvenna í kvöld í Ásgarði. Breiðablik hafði bætt við sig nýjum erlendum leikmanni fyrir leikinn en það dugði ekki til sigurs og Stjarnan vann leikinn 78-74.

Fyrir leikinn

Þetta var seinasta viðureignin í heilli umferð úrvalsdeildar kvenna, þ.e.a.s. liðin voru að mæta seinasta liði sínu í fyrsta sinn á þessu tímabili. Stjarnan hafði unnið fjóra leiki og tapað tveimur og sátu í öðru sæti deildarinnar á meðan að Breiðablik hafði enn ekki unnið leik og voru því á botni deildarinnar með 6 töp.

Breiðablik hafði fengið þær fréttir eftir seinasta leik að Isabella Ósk Sigurðardóttir, framlagshæsti íslenski leikmaður liðsins, væri með slitið krossband og yrði því ekki með í bráð. Blikar höfðu því bætt við sig serbneskum leikmanni með ungversk vegabréf, Sanja Orazovic, og hún var að spila sinn fyrsta leik með liðinu.

Gangur leiksins

Bæði liðin hófu leikinn af mikilli áfergju og þó að heimastúlkur tóku fljótt forystuna þá voru Blikar ekki langt undan. Stjarnan hitti betur úr skotum sínum en Breiðablik og hefði náð góðri forystu ef liðið hefði getað nýtt vítaskotin sín jafn vel og Blikar gerðu. Staðan eftir fyrsta leikhluta var því 24-19, Stjörnunni í vil. Staðan breyttist lítið í öðrum leikhlutanum en Stjörnustelpur voru ennþá nægilega mikið betri að þær gátu mjakað forystunni upp í 9 stiga mun fyrir hálfleikinn; 44-35.

Liðunum gekk heldur illa að skora eftir hálfleikshléið í fyrstu, en fyrstu stigin komu ekki fyrr en eftir rúmar þrjár mínútur. Hvort sem það var góð vörn eða slöpp sókn þá skoruðu liðin lítið í þriðja leikhluta. Stjarnan tók á sjöundu mínútu leikhlutans 7 stiga áhlaup til að breikka bilið og staðan var skyndilega 55-41. Blikar tóku þá sitt eigið 7 stiga áhlaup og löguðu stöðuna í 55-48 fyrir lokafjórðunginn.

Breiðablik sýndi klærnar í fjórða leikhluta og voru mjög aggressívar í vörn. Nýr leikmaður Breiðabliks, Sanja Orazovic, fór hamförum í hraðaupphlaupum og kom stöðunni í aðeins 4 stiga mun þegar rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka. Pétur Már, þjálfari Stjörnunnar, tók þá leikhlé og heimastúlkur gátu breikkað bilið aðeins aftur. Blikastelpurnar voru þó ekki hættar og náðu að minnka muninn aftur með 8-3 áhlaupi á lokamínútunni. Þær komust hins vegar ekki nær en fjórum stigum og leiknum lauk, eins og áður sagði, 78-74 fyrir Stjörnunni.

Lykillinn

Danielle Rodriguez var aftur mjög mikilvæg fyrir Stjörnuna, en hún nældi sér í aðra þreföldu tvennuna sína á tímabilinu í kvöld. Hún skoraði 22 stig, tók 13 fráköst, gaf 14 stoðsendingar og fiskaði 15 villur í leiknum. Skotnýtingin var ekki frábær (24%, 4/17 í skotum) en hún fór á vítalínuna 19 sinnum og nýtti 14 vítaskot þaðan. Hún lauk leik með 32 framlagspunkta. Sanja Orazovic var frábær fyrir Breiðablik í fyrsta leik sínum. Hún skoraði 28 stig í leiknum, þ.a. 20 stig í fjórða leikhlutanum! Við þetta bætti hún 10 fráköst og Sanja var aðeins einum framlagspunkti (31 framlagsstig) frá því að jafna framlag Danielle í leiknum.

Tölfræðin

Eins og gefur að skilja út frá lokastöðu leiksins voru liðin nokkuð jöfn í mörgum tölfræðiþáttum. Þau hittu úr jafnmörgum vítaskotum (21 hvort, þó Stjarnan hafi þurft fleiri tilraunir) og Stjarnan hitti úr einu skoti meira (24 vs 23 skot hitt utan af velli). Breiðablik tók eitt fleira frákast á heildina (48 á móti 47 hjá heimastúlkum) en tóku helmingi fleiri sóknarfráköst (21 á móti 14). Þau gátu þó ekki nýtt öll aukatækifærin og hittu t.a.m. talsvert verr frá þriggja stiga línunni, en Breiðablik skaut 20% frá 3ja á meðan að Stjörnustúlkurnar settu 39.1% af sínum þristum. Gríðarlega jafn leikur.

Skotnýting Mariu Florenciu Palacios hafði tekið smá dýfu í seinustu leikjum hennar eftir funheita byrjun í fyrstu tveimur, en hún setti 8 af 11 þristum (72.7%) í fyrstu tveim leikjunum sínum. Í næstu fjórum leikjum hennar hafði hún aðeins sett 4 af 21 (19.0%), nærri því þreföldun í nýtingu! Hún bætti hins vegar upp fyrir það í kvöld með því að setja 3 af 6 þristum sínum til að kippa heildarnýtingu sinni upp í 42.1% frá þriggja stiga línunni.

Kjarninn

Blikar höfðu séns til að vinna þetta og ef nokkur fleiri skot hefðu farið rétta leið þá væru þær loksins komnar með sinn fyrsta sigur. Það sást enn og aftur hve mikilvæg Dani er fyrir Stjörnuna, en hún fór út af í aðeins rúma mínútu í leiknum og Stjörnustúlkur töpuðu þeim stutta kafla með 7 stigum. Það verður gaman að sjá hvort að Sanja getur viðhaldið þessu framlagi í næstu leikjum því Breiðabliksstúlkurnar vantar nauðsynlega sigur.

Samantektin

Stjarnan er þá áfram í öðru sætinu á eftir Snæfell sem hefur aðeins tapað einum leik. Dani heldur áfram að dóminera fyrir sitt lið og ef hinar geta stigið hænuskrefi lengra getur þetta lið mögulega hrifsað fyrsta sætið af Hólmurum. Breiðablik er ennþá án sigurs þrátt fyrir að þær hafa aldrei tapað leik í venjulegum leiktíma með meiru en 10 stigum og hafa í nær öllum leikjunum verið innan við 5 stig frá andstæðingum sínum á lokamínútunni. Kannski er nýja viðbótin það sem þær þurfa til að komast yfir hjallann og byrja að vinna leiki. Kemur í ljós!

Tölfræði leiksins

Myndasafn: Bjarni Antonsson

Viðtöl eftir leik:
Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson
Myndir / Bjarni Antonsson
Fréttir
- Auglýsing -