Í hverri viku munu sérfræðingar Körfunnar spá fyrir um hverja umferð í Dominos deildunum. Sérfræðingarnir verða fyrrum körfuboltamenn, þjálfarar, áhugamenn eða einhver allt annar.
Til gamans má geta að Signý Hermannsdóttir síðasti spámaður Körfunnar var með alslemmu, alla fjóra leikina rétta. Þar af var hún ansi nálægt því að vera með rétt stigaskor í tveimur leikjum en einungis munað tveimur stigum á leik Keflavíkur og Vals.
Sjöunda umferð Dominos deildar kvenna verður leikin í kvöld með fjórum leikjum. Mikil spenna hefur verið á öllum vígvöllum hingað til í vetur og því líklegt að svo verði áfram í kvöld.
Spámaður vikunnar er Helga Einarsdóttir fyrrum leikmaður KR og Grindavíkur.
________________________________________________________________________
Skallagrímur – Haukar
Bæði lið eru búin að vinna tvo leiki og tapa fjórum og ef maður ber saman tölfræði liðanna eftir fyrstu 6 umferðirnar, að þá er hún skemmtilega lík. Þetta verður naglbítur en ég held að heimavöllurinn geri gæfumuninn þar sem Skallagrímskonur hafa tekið sína sigra heima. Þær vinna þennan spennuleik með 3.
Stjarnan – Breiðablik
Það er erfitt að spá fyrir hvernig þessi leikur mun spilast þar sem Breiðablikskonur mæta til leiks með nýjan erlendan leikmann. Breiðablik hafa verið flottar í vetur, þetta eru sprækar stelpur, vel þjálfaðar og oftar en ekki vantað herslumun að þær taki sigur. Ég held þó að nýji leikmaðurinn þurfi tíma til að aðlagast og að Rodriguez leiði sterkt lið Stjörnunnar til sigurs. Stjarnan vinnur með 10.
Keflavík – KR
KR stelpurnar hafa komið með trukki inn í þetta tímabil. Það gleður mig enda á þetta lið heima í toppbaráttu í deild þeirra bestu. Keflavíkur liðið er vel mannað og verður gaman að fylgjast með baráttu leikstjórnenda liðanna enda 2 frábærir leikstjórnendur. Ég spái að KR stelpur láti ekki toppsætið frá sér og þær vinni þennan leik með 4.
Snæfell – Valur
Snæfells stelpur eru erfiðar heim að sækja og ætla ég að spá þeim sigri. Það kæmi mér þó ekki á óvart ef Vals stelpur sigra þennan leik. Þær eru nýbúnar að láta erlendan leikmann sinn fara sem mér fannst ekki hjálpa liðinu nógu mikið og spiluðu þær oft betur án hennar. Ef þær fá sterkan leikmann tel ég að þær verði sigurstranglegar í vor. En Snæfell vinnur með 6.
Spámenn tímabilsins:
3. umferð – Elín Sóley Hrafnkelsdóttir (1 réttur)
5. umferð – Signý Hermannsdóttir (4. réttir)