spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaTæknin tók völdin í Stjörnusigri

Tæknin tók völdin í Stjörnusigri

Stjarnan tók á móti Þórsurum frá Þorlákshöfn í 5. umferð Domino’s deildar karla í gær, fimmtudag. Fyrir leik höfðu Stjörnumenn unnið þrjá leiki og tapað einum, á meðan gestirnir voru með öfugt hlutfall við Garðbæinga, höfðu tapað þremur leikjum og unnið einn.

Stjörnumenn byrjuðu leikinn umtalsvert betur og var staðan fljótlega orðin 11-0, þegar dómarar leiksins þurftu skyndilega að taka leikhlé vegna tæknilegra örðugleika, sem áttu heldur betur eftir að setja svip sinn á leikinn. Eftir að leikur hófst á ný héldu heimamenn áfram að salla stigum á gestina, og var staðan fljótlega orðin 20-3 þegar gestirnir virtust ranka við sér, en staðan í lok fyrsta leikhluta var 24-14, Stjörnunnni í vil. Sama var uppi á teningnum í öðrum leikhluta, þar sem Stjörnumenn virtust hreinlega ekki geta klikkað í sókninni, og leiddu Garðbæingar með 20 stigum í hálfleik, 52-32.

Í þriðja leikhluta tóku tæknileg vandamál sig upp á ný og trufluðu leikinn ítrekað, við litla hrifningu allra viðstaddra. Þrátt fyrir það náðu heimamenn að halda góðri forystu og leiddu 69-48 fyrir lokafjórðunginn. Lokafjórðungurinn varð aldrei spennandi, og fór svo að lokum að heimamenn unnu góðan 89-73 sigur á Þórsurum.

Afhverju vann Stjarnan

Stjörnumenn byrjuðu leikinn af miklum krafti og lögðu línurnar strax í upphafi með frábærum sóknarleik og kæfandi vörn. Þá voru margir leikmenn sem lögðu sitt á vogarskálarnar hjá Garðbæingum, en til að mynda skoruðu fjórir leikmenn yfir 10 stig, og tíu leikmenn komust á blað í stigaskorun. Þórsarar virtust hins vegar aldrei líklegir til að taka neitt úr þessum leik, þrátt fyrir ágætis takta í seinni hálfleik, en það var einfaldlega um seinan.

Bestur

Það er erfitt að sigta út leikmann úr jöfnu liði Stjörnunnar, en allt byrjunarlið heimamanna átti góðan leik. Paul Anthony Jones var stigahæstur með 20 stig, auk 7 frákasta, og Antti Kanervo skoraði 16 stig.

Tæknilegir örðugleikar

Víkur nú sögunni að þeim tæknilegu örðugleikum sem trufluðu leikinn ítrekað. Um miðjan fyrsta leikhluta kom upp sú staða að ekki var hægt að endurræsa skotklukku leiksins og rann hún því nokkrum sinnum út og glumdi, þegar hún átti sannarlega ekki að gera það. Því þurfti ítrekað að gera hlé á leiknum á meðan starfsfólk leiksins reyndi að ráða fram úr vandanum. Í síðari hálfleik varð hins vegar ljóst að bilunin væri meiri en starfsfólk leiksins gæti leyst, og því setti þessi tæknilegi vandi sinn svip á leikinn allan síðari hálfleikinn.

Framhaldið

Stjörnumenn fara næst í Origo höllina 8. nóvember þar sem þeir mæta Valsmönnum, en á sama tíma taka Þórsarar á móti ÍR í Icelandic Glacial höllinni.

Fréttir
- Auglýsing -