Það mátti búast við logninu á undan storminum að Hlíðarenda í kvöld. Valsmenn höfðu ekki að neinu að keppa, nema kannski helst því að fagna deildarmeistaratitlinum með sigri. Svipað var upp á teningnum hjá gestunum að norðan, Tindastólsmönnum, en þeir sitja fastir í 5. sæti deildarinnar. Henda mætti fram þeirri kenningu að liðið sem telur mikilvægara að fara inn í úrslitakeppnina með sigri muni hafa betur í kvöld.
Kúlan: ,,Piff, lélegur og heimskulegur inngangur! Valsvélin mallar þetta í gegn, 97-84.“
Byrjunarlið
Valur: Kristó, Pablo, Hjálmar, Kári, Callum
Tindastóll: Arnar, Pétur, Woods, Drungilas, Badmus
Gangur leiksins
Gestirnir voru ekki alveg til staðar, einkum varnarlega, fyrstu mínúturnar og Valsmenn settu fyrstu 2 körfur leiksins með troðslu! Stólarnir rönkuðu þó fljótt við sér og komust yfir um miðjan leikhlutann, 8-9. Þeir héldu nefinu á sér framar út leikhlutann og leikar stóðu 18-21 eftir einn fjórðung.
Það var ekki annað að heyra en að leikurinn færi fram í Síkinu, enda sungu Grettismenn ,,Velkomnir í Síkið“ í byrjun leiks! Stólarnir áttu fyrstu mínútur annars leikhluta og leiddu mest með 11 stigum, 19-30, er 6 mínútur voru til leikhlés. Valsmenn eru hins vegar ekki handhafar allra mögulegra titla fyrir ekki neitt og svöruðu fyrir sig, fremstur fór Ozren Pavlovic sem setti 13 stig í fyrri hálfleik. Heimamenn komust yfir eftir þrist frá fyrrnefndum Ozren, 40-39, en þó voru það gestirnir sem leiddu 43-45 í hálfleik. Arnar og Badmus voru stigahæstir Stólanna með 11.
Seinni hálfleikur var til að byrja með ekki mikið fyrir augað og liðin skiptust á vandræðalegum tilraunum til að koma tuðrunni ofan í. Gestirnir voru fyrri til að hrista af sér þessa vitleysu og Woods kom sínum mönnum tugi yfir 47-57 rétt fyrir miðjan leikhlutann. Heimamenn löguðu stöðuna lítið eitt fyrir leikhlutaskiptin, Stólarnir leiddu 62-69 fyrir lokaátökin.
Taiwo Hassan Badmus var búinn að vera beittur í leiknum fram að þessu og hóf fjórða leikhlutann með körfu góðri. Skömmu síðar bauð hann upp á gersamlega ÖSKRANDI troðslu sem allir þurfa að sjá svona 10 sinnum aftur! Víti fékk hann í kaupbæti og setti stöðuna í 64-79. Finnur tók leikhlé en það var eins og að viljinn til að vinna hafi verið talsvert meiri hjá gestunum. Sóknarleikur heimamanna var ansi stirðbusalegur, mikið um hlaup í fangið á varnarmúr Stólanna og tapaðir boltar í kjölfarið. Woods tryggði gestunum sigurinn með þristi og víti að auki þegar góðar 2 mínútur voru eftir, staðan 71-91 og úrslit ráðin. Lokatölur urðu 71-98 í alveg ágætum körfaboltaleik þó hann hafi ekki verið upp á mikið.
Menn leiksins
Taiwo Hassan Badmus var frábær í þessum leik! hann setti 30 stig og tók 14 fráköst. Stundum er eins og það sé einhvern veginn slökkt á honum en það var allt í botni í kvöld…og þessi troðsla! Woods átti einnig fantaleik, setti 26 stig og tók 5 fráköst.
Pavlovic var atkvæðamestur Valsmanna með 16 stig. Finnur hefur sennilega hvatt hann til að skjóta líkt og í síðasta leik, það gæti orðið dýrmætt fyrir liðið í framhaldinu að koma honum í gang.
Kjarninn
Stólarnir reyndu þrisvar að sækja sigur að Hlíðarenda í úrslitakeppninni á síðasta tímabili en höfðu ekki erindi sem erfiði. Hvort sigurinn í kvöld gæti átt eftir að reynast fordæmisgefandi síðar í úrslitakeppninni í ár skal ósagt látið. Stólarnir mæta a.m.k. með sigurbragð í munni í fyrsta leik sínum í úrslitakeppninni en hann mun fara fram í Keflavík.
Valsmenn rúlluðu vel á liðinu í kvöld og í takt við innganginn má segja að það hafi verið frekar lygnt yfir þessu hjá liðinu. Kári og Pablo skoruðu t.a.m. einungis 4 stig hvor. Helstu hestar Hlíðarendapilta ættu að mæta sprækir inn í fyrsta leik úrslitakeppninnar og þrátt fyrir tapið í kvöld er fáránlegt að sjá fyrir sér að handhafar allra titla mæti eitthvað litlir til leiks.