Segja má að bæði lið hafi verið með böggum Hildar fyrir leik kvöldsins…. Valsmenn án sigurs og Grindavíkingar í eilítið betri málum með 1-3. Bæði lið með mikið breytt lið síðan í upphafi móts en Grindvíkingar kynntu nýjan liðsmann til leiks fyrir leikinn, Tiegbe Bamba. Lewis Clinch nýlega mættur aftur til Grindavíkur, í sínum þriðja leik og sést það vel á honum að hann á taaalsvert mikið inni. Valsmenn kynntu tvo nýja útlendinga til leiks í síðustu umferð, hinn smáa en mjög svo knáa Kendall Anthony Lamont og Englendinginn William Saunders. Eftir fraumraun kappanna á móti KR var farið „misgóðum“ orðum um þá, Kendall frábær á meðan Saunders virtist frekar eiga heima í vinsælustu íþrótt Tjallans, fótbolta…
En leikurinn var óttarlega daufur í fyrri hálfleik og liðin svipað léleg en Grindavík leiddi 44-42 að honum loknum. Atkvæðamestir heimamanna voru Óli og Clinch með 12 stig. Bamba sýndi fljótlega að hann smellpassar inn í deildina okkar og ég skal hundur heita ef hann á ekki eftir að reynast happafengur fyrir gula. Hjá Val var Kendall stigahæstur með 13 stig og hin öflugi Búlgari, Alex Simenov með 10. Aðrir langt frá sínu besta, m.a. byssan Austin Magnús Bracy sem var með 0 stig en bara eftir 3 tilraunir.
Heimamenn byrjuðu mun betur í seinni hálfleik og virtust ætla taka völdin en þeir eru einfaldlega ekki komnir nógu langt í leik sínum til að taka svona leiki yfir, vörnin of gloppótt svo Valsmenn áttu greiða leið til baka og má segja að leikurinn hafi verið í járnum meira og minna til loka. Grindvíkingar komust þó 5-8 stigum yfir þegar skammt lifði leiks en Valsmenn náðu samt að jafna og voru lokamínúturnar æsispennandi! Ólafur Ólafs tók einn af sínum erfiðu þristum og fannst undirrituðum það illa ígrundað skot en skv. minni tölfræði er Óli með lélega nýtingu úr slíkum 3-stiga skotum en hins vegar er hann frábær skytta þegar hann er búinn að stilla sér upp, er þá eflaust með á bilinu 40-50% nýtingu! En þetta illa ígrundaða skot hans rataði beint í körfuna og heimamenn þá komnir 3 stigum yfir. Einhverra hluta vegna fór Kendall í tveggja stiga skot sem hann setti og Valsmenn brutu og Óli setti annað vítanna niður, Valsmenn náðu frákastinu en hentu upp í rjáfur og þannig fór um sjóferð þá….
Skv. framlagi var Óli bestur heimamanna, með 27 slíka punkta (18 stig, 8 fráköst og 4 stoðsendingar). Hann var með góða nýtingu, skaut m.a. 3/5 í þristum og nýtti öll 4 2-stiga skot sín. Lewis Clinch var stigahæstur heimamanna með 24 stig og sýndi á stundum hvers hann er megnugur en á öðrum augnablikum eins mikið hvað hann á ennþá eftir nokkuð í land. En Grindvíkingar vita eins og flestir, að meistarar hafa ekki verið krýndir á þessum tíma síðan fyrirtækjabikarinn var og hét. Tiegbe Bamba sýndi að hann mun styrkja heimamenn mikið, ekta týpa í deildina eins og áður kom fram.
Aleks Simenov og Kendall Anthony Lamont voru yfirburðamenn gestanna í kvöld og skiluðu 35 og 35 framlagspunktum. Raggi kom þeim næstur með 11 framlagspunkta en aðrir voru einfaldlega ekki með. Aleks og Kendall voru já báðir frábærir, hittu vel (nýttu 22 af 32 skotum sínum…) Valsmenn eru með gjörbreytt lið síðan í fyrra og eru mun hægari en þá. Gústi þjálfari hitti greinilega ekki beint í Kana-lukkupottinn í fyrstu tilraun en er núna kominn með frábæran leikmann og með þessu áframhaldi munu rauðir ekki þurfa bíða lengi eftir fyrsta sigrinum.
Mynd / Guðlaugur Ottesen Karlsson