Urald King, sem farið hefur mikinn með liði Tindastóls í upphafi Domino’s deildar karla, hefur óskað eftir því við stjórn félagsins að fara í tímabundið leyfi til að vera viðstaddur fæðingu barns síns vestanhafs. King, sem hefur skilað 22 stigum, 13 fráköstum og 33 framlagspunktum að meðaltali fyrstu fjóra leiki tímabilsins, verður af þessum sökum fjarverandi í liði Skagfirðinga þar til eftir jólafrí, að því er kemur fram á Facebook síðu liðsins.
Í stað King hafa Stólarnir samið við Bandaríkjamanninn PJ Alawoya um að hann leiki með liðinu í fjarveru King. Alawoya þekkir vel til hér á landi, en hann varð meðal annars Íslandsmeistari með KR vorið 2017, þar sem hann skilaði 15 stigum og 8 fráköstum að meðaltali í leik.
Næsti leikur Tindastóls er næstkomandi föstudag, en þá mæta Skagfirðingar KR-ingum í DHL-höllinni, í uppgjöri liðanna sem léku til úrslita í Domino’s deildinni síðastliðið vor.