spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaBlikar færast nær en góður Haukasigur niðurstaðan

Blikar færast nær en góður Haukasigur niðurstaðan

Blikar heimsóttu Haukamenn í Schenker-höllina í kvöld. Gestirnir hafa e.t.v. reynt að semja um þriggja leikhluta leik enda aðeins sá fjórði sem hefur gengið illa hjá þeim það sem af er tímabils. Haukar unnu Val í fyrstu umferð en tap á Króknum og hræðilegur leikur heima á móti ÍR skellti þeim aftur niður á jörðina. Það er alveg hugsanlegt að þessi leikur eigi eftir að skipta miklu máli þegar allt kemur til alls í lok tímabils…

Spádómskúlan:  Kúlan er að hressast eftir alvarlegan haustbrag. Hún ætlar að elta tilfinningu sína en ekki harðar staðreyndir og spáir fyrsta sigri Blika í efstu deild í langan tíma, 87-80.

Byrjunarlið:

Haukar: Oliver, Hilmar, Haukur, Matic, Kiddi

Blikar: Covile, Erlendur, Snorri H., Snorri V., Arnór

Gangur leiksins

Leikurinn einkenndist af varnar- og stemmningsleysi í byrjun og liðin skiptust á að skora á hvort annað án mikilla vandræða. Sveinbjörn kom inn á fyrir Blika og hristi lítið eitt upp í hlutunum með tveimur flottum vörðum skotum og alley-up troðslu þar á milli! Flottir taktar og Blikar komust í 15-21 forystu á þeim kafla og juku lítið eitt við hana, 19-26, fyrir lok leikhlutans.

Blikar skiptu yfir í svæðisvörn í öðrum leikhluta en þrátt fyrir  nokkra stolna bolta svaraði það tæplega kostnaði því Haukar fengu ódýr stig, sóknarfráköst og opna þrista á móti. Það vildi þeim til happs að Haukavörnin var eins og gatasigti og Blikar nýttu sér það ágætlega, einum fyrir utan 3ja stiga línuna. Erlendur, einn af íslenskum leikmönnum Blika, var heitur og ásamt flottum leik Snorra H. héldu Blikar 45-51 forskoti í hálfleik.

Haukur Óskars var vel tengdur í kvöld og spilaði afar vel í seinni hálfleik. Hann gaf tóninn, setti 5 snögg stig og Haukar voru allt í einu komnir yfir, 53-51. Snorri Hrafnkels tróð einum þristi í frussandi sárið og gestirnir náðu aftur nokkura stiga forystu. Það var þó skammgóður vermir og Haukavörnin tók sig saman í andlitinu og náði að tengja saman nokkur stopp. Sóknin varð liprari í kjölfarið og margir lögðu í púkkið. Í stöðunni 71-62 virtust heimamenn ætla að stinga af en Daði Lár var ekki í sínu besta stuði og bar allnokkra ábyrgð á 7 stiga sókn Blika. Hann var svo kominn í snemmbúna sturtu í lok leikhlutans en hans menn voru þó enn 73-69 yfir.

Blikar hafa ekki beint verið að gera góða hluti í fjórða leikhluta það sem af er vetri. Það voru því jávæð merki fyrir þá að þrátt fyrir allt að 10 stiga forskot Hauka náðu Blikar að koma til baka og Covile jafnaði í 87-87 þegar um 3 mínútur voru eftir. Covile og Oliver virtust vera í vítakeppni næstu mínútur og jafnt á öllum tölum. Þegar 38 sekúndur voru eftir leiddu heimamenn með einu stigi og þrátt fyrir tvö tækifæri gestanna til að koma sér yfir gekk það ekki eftir og vítaskot heimamanna í lokin tryggði 96-92 sigur.

Maður leiksins

Haukur Óskarsson var frábær í þessum leik! Hann setti 26 stig, tók 5 fráköst og gaf 8 stoðsendingar. Eftir að hafa misst hálft liðið fyrir tímabilið þurfa Haukar á svona frammistöðu að halda sem oftast frá nafna sínum.

Kjarninn

Við getum spilað sömu plötuna enn og aftur hvað Blika varðar. Þeir spila skemmtilega og bara nokkuð vel en það hefur ekki skilað stigum enn. En þeir færast nær sigri eða hvað? Pétur velti fyrir sér í viðtali eftir leik hvort besta leiðin væri kannski að stefna á að ná 30 stiga forskoti í næsta leik!

Haukarnir halda áfram að koma svolítið á óvart en þetta kemur þjálfara liðsins hins vegar ekkert á óvart. Hann hefur tröllatrú á sínum strákum og sjálfur á hann hrós skilið fyrir að stýra liðinu til tveggja sigra eftir fjóra leiki.

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Bára Dröfn)

Umfjöllun: Kári Viðarsson

Fréttir
- Auglýsing -