Það var mikil stemning í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld þegar tvö af þremur taplausum liðum í Dominos deildinni mættust.
Heimamenn í Tindastól byrjuðu með látum þegar Urald King tróð boltanum í körfu Njarðvíkinga eftir sendingu Péturs Rúnars, alley-oop eins og best gerist. Njarðvík svaraði þó strax og áttu næstu 7 stig og leiddu 2-7 þegar tæpar 3 mínútur voru liðnar af leiknum. Þá settu heimamenn í gang og keyrðu yfir gestina á báðum endum vallarins með frábærum leik, munurinn hvarf eins og dögg fyrir sólu og þegar leikhlutinn var liðinn leiddu heimamenn með 12 stigum 27-15. Árásin hélt svo áfram í öðrum leikhluta og Tindastólsmenn voru einfaldlega miklu betri en gestirnir á öllum sviðum leiksins. Pétur Rúnar fór hamförum og stjórnaði leiknum eins og herforingi og var kominn með 19 stig og 8 stoðsendingar í hálfleik! Kóngur!
Aðrir leikmenn Tindastóls fylgdu fordæmi hans og léku vel á báðum endum vallarins, einkum í vörninni þar sem þeir leyfðu gestunum einungis 31 stig í fyrri hálfleik og skoruðu 55 sjálfir.
Leikurinn virtist í raun búinn í hálfleik en það vita allir að byrjun seinni hálfleiks getur ráðið miklu um lokaniðurstöðuna og heimamenn komu svo sannarlega tilbúnir inn í hann og skoruðu 10 fyrstu stigin. Munurinn kominn í 34 stig og sigurinn tryggður, eina spurningin var hversu stór hann yrði. Þrátt fyrir að slaka aðeins á eftir þetta voru heimamenn að spila vel áfram og alltaf þegar Njarðvíkingar virtust ætla að koma með eitthvað áhlaup þá var alltaf einhver sem steig upp og svaraði.
Eins og áður segir fór Pétur Rúnar mikinn fyrir heimamenn og var langbesti maður vallarins. Hann skilaði 29 stigum og 7 stoðsendingum og gestirnir réðu ekkert við hann. Urald King var með tröllatvennu þó hann hefði frekar hægt um sig í stigaskorun, var með 16 stig og 17 fráköst auk 5 stoðsendinga. Liðsvörn Tindastóls var frábær og þar skiluðu allir sínu, Hannes og Viðar skiptust á að halda Jeb Ivey niðri og skiptingarnar í vörninni gerðu það að verkum að Logi Gunnars átti erfitt uppdráttar. Eini leikmaðurinn með lífsmarki hjá gestunum var Mario Matasovic sem skilaði 16 stigum og 10 fráköstum. Magic (Maciek Baginski) átti nokkra spretti og sýndi hversu lunkinn körfuboltamaður hann er.
Svona leikur er stórt statement frá Tindastól sem augljóslega ætla sér ekkert að gefa eftir í deildinni. Menn voru á tánum frá byrjun og þegar liðið spilar svona er ekkert lið í deildinni sem getur hamið þá.
Mynd: Davíð Már Sigurðsson – Urald King með tröllatroðslu