Keflavíkur stúlkur tóku á móti Vals stúlkum í kvöld. Fyrir leikinn höfðu bæði lið unnið tvo og tapað tveim leikjum. Meistarar Keflavíkur hikstuðu aðeins í fyrstu tveim leikjum tímabilsins en hafa verið sannfærandi og unnið góða sigra gegn Skallagrím og Haukum. Valur sem var spáð öðru sæti í deildinni hefur ekki verið nógu sannfærandi. Leikur kvöldsins er því kjörið tækifæri fyrir liðin til að sýna það besta sem þau hafa upp á að bjóða. Sýna okkur af hverju þessum liðum var spáð efstu tveim sætum í deildinni.
Það voru gestirnir sem settu fyrstu 7 stigin en heimastúlkur komu sterkar inn í fyrsta leikfjórðung og unnu hann sannfærandi. Annar leikfjórðungur endaði sömuleiðis sannfærandi Keflavík í hag. Staðan í hálfleik 51 – 29. Valsstúlkur komu grimmar inn í þriðja leikhluta og minnkuðu muninn í 8 stig með frábærum 2 – 16 kafla. Valsstúlkur byrjuðu fjórða leikhluta betur og komust körfu frá Keflavík. Leikfjórðungurinn var mjög skemmtilegur en það voru þó heimamenn sem innsigluðu sigurinn 77 – 69.
Byrjunarlið:
Keflavík: Bryndís Guðmundsdóttir, Katla Rún Garðarsdóttir, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir, Brittanny Dinkins og Erna Hákonardóttir.
Valur: Hallveig Jónsdóttir, Dagbjört Dögg Karlsdóttir, Simona Podesvova, Brooke Johnson og Ásta Júlía Grímsdóttir.
Þáttaskil:
Fyrri hálfleikur var eign Keflavíkur. Góð vörn og opin skot tryggðu þeim 22 stiga forustu í hálfleik. Góð karfa, stolinn bolti og stoðsending Birnu Valgerðar á sjöundu mínútu þriðja leikhluta kom Keflavík af stað í steindauðum leikfjórðung hjá heimamönnum. Vörnin lagaðist og áhorfendur tóku við sér. Þetta bat enda á frábært áhlaup gestanna og tryggði heimamönnum 7 stiga forustu inn í fjórða leikhluta. Barátta og frábær vörn Salbjargar Rögnu í fjórða leikhluta var til mikillar fyrirmyndar og hélt Keflavík inni í leiknum.
Tölfræðin lýgur ekki:
28 stig frá bekk heimamanna á móti 14 stigum Valsstúlkna gerði gæfumuninn í kvöld. Keflavíkurstúlkur eru með gífurlega djúpan og góðan bekk.
Hetjan:
Brittanny Dinkins var númeri of stór fyrir Valsstúlkur. Hún skilaði 32 framlagsstigum og var besti leikmaður vallarins. Bekkur Keflavíkur er ómetanlegur og skilaði 28 stigum. Lið finna ekki svoleiðis á götunni!
Kjarninn:
Steindauður leikur varð æsispennandi. Valsstúlkur sem virtust hafa gleymt baráttunni í Reykjavík fengu hana með hraðsendingu í hálfleik. Úr varð æsispennandi og skemmtilegur fjórði leikhluti. Það reyndist Valsstúlkum dýrkeypt að missa alveg af lestinni í fyrri hálfleik. Þær gerðu vel með því að koma til baka og gera unnin leik að spennandi skemmtilegum leik.
Umfjöllun: Þormóður Logi Björnsson