Stjarnan lagði KR á Meistaravöllum í kvöld í lokaumferð Subway deildar karla, 100-118. Stjarnan endaði í 8. sæti deildarinnar með 18 stig á meðan að KR höfnuðu í vþí 12. með 8 stig.
Fyrir leik
KR voru fallnir úr deildinni fyrir nokkrum umferðum og því hafði leikur kvöldsins engin áhrif fyrir þá. Stjarnan aftur á móti þurfti á sigri að halda til þess að eygja von um sæti í úrslitakeppninni.
Gangur leiks
Gestirnir úr Garðabæ eru skrefinu á undan á upphafsmínútum leiksins. Eiga nokkuð auðvelt með að koma stigum á töfluna og leiða með 9 stigum eftir fyrsta leikhluta, 25-34. Þrátt fyrir ágætis upphaf á öðrum leikhlutanum hjá KR missa þeir Stjörnumenn alveg frá sér undir lok fyrri hálfleiksins, en staðan þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er forysta Garbæinga 20 stig, 46-66.
Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Antonio Deshon Williams með 16 stig á meðan að Niels Gustav William Gutenius var kominn með 17 stig fyrir Stjörnuna.
Heimamenn ná ekki að gera neina sérstaka atlögu í upphafi seinni hálfleiksins. Eitt gott áhlaup kemur þeim 15 stigum frá gestunum, sem síðan setja fótinn aftur á bensíngjöfina og eru með frekar þægilegt 27 stiga forskot fyrir lokaleikhlutann, 69-96. KR-ingar ná ekki að koma með neitt áhlaup í þeim fjórða og Stjarnan siglir að lokum gífurlega öruggum sigur í höfn, 100-118.
Atkvæðamestir
Bestur í liði Stjörnunnar í kvöld var Niels Gustav William Gutenius með 23 stig, 11 fráköst og Dagur Kár Jónsson bætti við 25 stigum og 4 stoðsendingum.
Fyrir KR var Veigar Áki Hlynsson atkvæðamestur með 17 stig, 8 fráköst og 3 stoðsendingar. Honum næstur var Aapeli Elmeri Ristonpoika Alanen með 21 stig og 9 fráköst.
Hvað svo?
Líkt og tekið var fram eru KR fallnir í fyrstu deildina og er því þessu síðasta tímabili þeirra í Subway deildinni í bili lokið. Tímabil Stjörnunnar heldur hinsvegar áfram þar sem að með sigri þeirra í kvöld gegn KR á meðan að bæði Breiðablik og Höttur töpuðu sínum leikjum, náðu þeir að tryggja sér 8. og síðasta sæti úrslitakeppninnar.