spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaKeflavík deildarmeistarar 2023 - Lögðu Fjölni örugglega í Blue Höllinni

Keflavík deildarmeistarar 2023 – Lögðu Fjölni örugglega í Blue Höllinni

Keflavík lagði Fjölni í kvöld í Blue Höllinni í lokaumferð Subway deildar kvenna, 90-64. Eftir tímabilið stóðu Keflavík uppi sem deildarmeistarar með 28 stig á meðan að Fjölnir endaði í 6. sætinu með 16 stig.

Fyrir leik

Keflavík hafði þegar tryggt sér deildarmeistaratitilinn og þær fengu hann afhendan eftir hann. Einnig voru Fjölniskonur öruggar með að enda í 6. sæti deildarinnar, nokkuð frá því að vera með sæti í úrslitakeppninni.

Keflavík hafði nokkuð örugglega unnið allar þrjár viðureignir liðanna í deildinni í vetur, síðast þann 22. febrúar með 12 stigum í Dalhúsum, 81-93.

Gangur leiks

Gestirnir úr Grafarvogi byrjuðu leikinn ágætlega og eru snemma komnar með 8 stiga forystu. Keflavík nær þó að vinna það nokkuð hratt niður og eru sjálfar 2 stigum yfir við lok fyrsta fjórðungs, 20-18. Í öðrum leikhlutanum skiptast liðin á snöggum áhlaupum, þar sem Keflavík fær nokkra þrista til að detta og Fjölnir nær í nokkur skipti að vinna vel úr pressuvörninni sem heimakonur voru að spila. Keflavík heldur þó forystunni til búningsherbergja í hálfleik, 46-41.

Stigahæst fyrir Keflavík í fyrri hálfleiknum var Birna Valgerður Benónýsdóttir með 13 stig á meðan að Urté Slavickaite var komin með 15 stig fyrir Fjölni.

Keflavík opnar seinni hálfleikinn með 6-0 áhlaupi og eru 11 stigum yfir þegar 8 mínútur eru eftir af þriðja, 52-41. Heimakonur gera í framhaldinu nánast útum leikinn. Keyra forskot sitt upp í 19 stig þegar 2 mínútur eru eftir af fjórðungnum og til þess að bæta gráu ofaná svart þá snýr lykilleikmaður Fjölnis Brittany Dinkins sig og þarf að fara af velli. Munurinn fyrir lokaleikhlutann 77-51. Fjórði leikhlutinn var ágætis skemmtun þó að litlu væri að keppa fyrir liðin tvö. Báðir þjálfarar fór eins djúpt á bekk sinn og þeir gátu og leikmennirnir sem komu inná stóðu sig allir með prýði. Niðurstaðan að lokum þó mjög svo öruggur sigur Keflavíkur, 90-64.

Atkvæðamestar

Best í liði Keflavíkur í kvöld var Daniela Wallen sem skilaði 18 stigum, 8 fráköstum, 4 stoðsendingum og 6 stolnum boltum á tæpum 23 mínútum spiluðum. Fyrir Fjölni var það Brittany Dinkins sem dró vagninn með 10 stigum, 4 fráköstum, 5 stoðsendingum og 4 stolnum boltum á sléttum 27 mínútum spiluðum.

Kjarninn

Þessi leikur skipti ekki nokkru máli fyrir stöðu liðanna í deildinni. Það var þó ekki þannig að hann bæri þess merki lengi vel framan af þar sem bæði liðin virtust vera á fullum hraða í fyrri hálfleiknum og bæði virkilega vilja vinna þennan síðasta leik deildarkeppninnar. Þegar í seinni hálfleikinn var komið og sérstaklega eftir að Brittany Dinkins yfirgaf leikinn fyrir Fjölni í þriðja leikhluta var eins og allt loft væri úr gestunum og bæði lið komu fram við fjórða leikhlutann eins og einskonar æfingarleik.

Hvað svo?

Keflavík mætir grönnum sínum úr Njarðvík í fyrri umferð úrslitakeppninnar á meðan að Fjölniskonur eru komnar í sumarfrí.

Tölfræði leiks

Mynd – Víkurfréttir/JPK

Fréttir
- Auglýsing -