spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaU-beygja í Garðabænum

U-beygja í Garðabænum

Stjörnumenn fengu ÍR-inga í heimsókn á nýja parketið í MG-höllinni í fyrsta leik liðanna á tímabilinu. Stjörnunni er spáð góðu gengi í vetur af helstu spekingum þjóðarinnar en síður er búist við því að ÍR-ingar nái að fylgja eftir góðu tímabili í fyrra.

Spádómskúlan:  Kúlan er frekar lítil í sér eftir hræðilega byrjun á tímabilinu. Frá henni berst lágt hvísl þess efnis að úrslitin verði óvænt – að gestirnir muni sigra 81-83 í spennuleik.

Byrjunarlið:

Stjarnan: Pryor, Hlynur, Ægir, Kanervo, Paul Jones

ÍR: Siggi, Matti, Fissi Kalli, Justin, Gerald Robinson

Gangur leiksins

ÍR-ingar byrjuðu af miklum krafti og tóku strax öll völd á vellinum. Svæðisvörnin þeirra var kæfandi góð og Justin Martin, Robinson og Matti voru heitir sóknarmegin. Gestirnir komust í 11-26 þegar rúm mínúta var eftir af leikhlutanum og voru í raun klaufar að missa forystuna niður í 18-28 fyrir fjórðungaskiptin.

Svipaða sögu var að segja af öðrum leikhluta. Stjörnumenn virtust ekki tilbúnir fyrir svæðisvörn og töpuðu boltanum ítrekað. Paul Jones var nánast sá eini Stjörnumegin sem var sæmilega tengdur og hélt heimamönnum hreinlega á floti. ÍR-ingar komu sér aftur í um 15 stiga forystu í leikhlutanum og það má segja að 45-55 staða í hálfleik hafi verið vel sloppið fyrir Stjörnumenn.

Heimamenn buðu upp á krappa U-beygju í síðari hálfleik. Varnarleikur liðsins var hreinlega eins og svart og hvítt á milli hálfleika – ÍR-ingar settu 55 stig í fyrri hálfleik en aðeins 14 og 8 í 3. og 4. leikhluta. Ægir leiddi varnarleikinn og hékk á Matta eins og sníkjudýr. Stjörnumenn fundu lausnir gegn svæðisvörninni sem gestirnir héldu til streitu og finnska stórskyttan hefði gert U-beygjuna enn skarpari hefði hann ekki verið ísjökulkaldur. ÍR-ingar skoruðu ekki stig í 6 mínútur en þá voru Stjörnumenn komnir yfir, 61-56. Eftir þriðja var jafnt 69-69, að þessu sinni í raun vel sloppið fyrir gestina.

Það var mikið ráðaleysi og vonleysi í gestunum í seinni hálfleik og Stjörnumenn sigu fljótt framúr. Um miðjan leikhlutann var staðan 81-70 og það lá í loftinu að sigur heimamanna væri hreinlega í höfn þó enn væri nægur tími eftir. Það koma líka á daginn að heimamenn sigldu sigrinum heim átakalítið eftir hart í bak viðsnúning. Lokatölur 94-77.

Maður leiksins

Paul Jones var vafalaust maður leiksins, ekki síst fyrir að troða marvaðann í fyrri hálfleik og halda sínum mönnum hreinlega á floti. Hann var líka góður í seinni hálfleik en fékk þá fínan stuðning frá félögum sínum. Hann var með 26 stig, 10 fráköst og mjög góða skotnýtingu.

Kjarninn

ÍR-ingar þurfa að kunna fleiri en eitt trikk ætli þeir að vinna körfuboltaleik. Borche kann vafalaust fullt af trikkum og þau koma. Í viðtali við Matta eftir leik kom fram að liðið hefur átt svolítið erfitt uppdráttar í undirbúningi fyrir leiktíðina og eiga nokkuð í land. Þeir verða eflaust betri eftir því sem líður á, en það á svo sem við flest liðin í deildinni…

Stjarnan er með hörkuflottan mannskap en það dugir auðvitað ekki eitt og sér. Svæðisvörn ÍR-inga virtist koma heimamönnum í opna skjöldu og Arnar viðurkenndi fúslega í viðtali eftir leik að hann hafði ekki búið liðið nægilega vel undir það. Hann leiðrétti sín mistök snarlega og stýrði liðinu í nánast fullkomna U-beygju og öruggan sigur að lokum.

Tölfræði leiksins

Kári Viðarsson

Fréttir
- Auglýsing -