Íslandsmeistarar KR byrjuðu tímabilið á sannfærandi sigri gegn Skallagrím í Dominos deild karla í kvöld. Borgnesingar voru sterkari framan af fyrri hálfleik en segja má að KR hafi klárað leikinn með góðum kafla í byrjun seinni hálfleiks. Skallagrími tókst ekki að komast nálægt KR í lok leiks og lokastaðan 109-93.
Allt annað að sjá Íslandsmeistarana
KR voru mun sterkari í þessum leik en gegn Tindastól á sunnudag. Liðið var tilbúið til að hlaupa með Skallagrím allan leikinn og var virkilega sannfærandi. Vörn KR var ekki góð í fyrri hálfleik en skánaði til muna í þeim seinni. KR virtist bara vita hvað þyrfti til til að vinna þennan leik og voru meira sannfærandi í sínum aðgerðum þegar leið á leikinn.
Vörn Skallagríms eftir í Borgarnesi
Skallagrímsliðið er spennandi, liðið virðist ætla að keyra upp hraðann og vinna á þeim styrkleikum sínum. Sóknarleikur liðsins var hinsvegar tiltölulega hugmyndasnauður þegar liðið þurfti á körfu að halda. Mikið af einstaklingsframtaki þar sem þeir Aundre og Eyjólfur fá mikið að klappa boltanum. Það er svo óþarfi að nefna vörn liðsins sem var ekki til staðar, enda fékk liðið 109 stig á sig. Stemmningin virðist hinsvegar góð og menn eru fullir sjálfstrausts. Borgnesingar eiga eftir að vinna leiki, svo mikið er víst.
The Julian Boyd Show
Julian Boyd sýndi styrk sinn í leik kvöldsins. Hann fór hreint ótrúlega af stað og var með yfir helming stiga KR framan af leik. Hann prófaði körfurnar í DHL líklega fimm sinnum úr alley op sendingum. Auk þess getur hann skotið boltanum og er því gríðarlega erfiður viðureignar. Það merkilega er að maðurinn er búinn að slíta krossbönd fjórum sinnum en hefur enn þessa snerpu og stökkkraft.
Það er nýr Hilmarsson í bænum
Einhverjir höfðu kannski óttast að KR myndi sakna Darra Hilmarssonar mikið í vetur. Það var mögulega óþarfi því bróðir hans Orri Hilmarsson spilaði eins og engill í dag. Nýtti mínúturnar sínar vel og hitti öllum skotum sínum.
Viðtöl eftir leik: