spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaHaukar svara hrakspám í fyrsta leik

Haukar svara hrakspám í fyrsta leik

Valsmenn fengu systurfélag sitt, Hauka, í heimsókn í fyrstu umferð Dominosdeildarinnar í kvöld. Liðunum er spáð hlið við hlið, í  8.-9. sæti, í spá KKÍ fyrir tímabilið. Jafnvel almestu anti-sportistar landsins eru að míga á sig af spennu fyrir þessu tímabili og ekki þolinmæði fyrir lengri inngangi…

Spádómskúlan: Kúlan var 51 stigi frá því í spá sinni um uppgjör meistaranna. Kúlan kemur því slök inn í fyrsta leik deildarinnar og hlýtur að gera betur. Hún þykist greina söknuð í augum gestanna enda margra að sakna úr Haukaliðinu og 82-72 sigur heimamanna í Val því skotheld og örugg spá.

Byrjunarlið:

Valur: Gunnar Ingi, Bracey, Aleks, Miles, Raggi Nat

Haukar: Oliver, Arnór, Haukur, Matic, Kiddi

Gangur leiksins

Heimamenn byrjuðu öllu betur þrátt fyrir að nokkuð væri um spennumistök á báða bóga eins og við mátti búast. Valsmenn leiddu 12-8 um miðjan leikhlutann og Oliver hafði þá skorað öll stig gestanna. Haukarnir fundu þá svör gegn varnarafbrigði Vals með Nat-vélina í teignum og röðuðu þremur þristum í röð. Eftir fyrsta fjórðung var allt í járnum, 20-20.

Fyrri hluti annars fjórðungs var alger eign heimamanna. Valsmenn hitnuðu sóknarlega og litu einfaldlega út fyrir að vera öllu sterkari á öllum sviðum og komust í 35-23. Að mati undirritaðs höfðu heimamenn þarna tækifæri á að koma sér í mjög þægilega stöðu og Haukarnir virtust ekki alveg tilbúnir í baráttuna. Sem betur fer fyrir Hauka er Ívar Ásgrímsson að þjálfa liðið en ekki undirritaður og gestirnir bitu í skjaldarendur og byrjuðu að svara fyrir sig. Að einhverju leyti verður að segjast að Valsmenn voru sjálfum sér verstir í ofanálag, gerðu sig seka um slæma tapaða bolta og almennan klaufagang. Þó héldu heimamenn til búningsklefa með 8 stiga 51-43 púða.

Marques Oliver hafði verið áberandi bestur á vellinum í fyrri hálfleik og hélt heldur betur áfram að sýna það í þeim þriðja. Hann var alls staðar sóknarlega sem og varnarlega og liðsfélagar hans fóru að fylgja fordæmi hans hver á fætur öðrum. Gestirnir voru komnir yfir 58-59 um miðjan leikhlutann og gamalkunnir draugar frá síðasta tímabili að banka upp á að Hlíðarenda. Oddur Rúnar tók þá til sinna ráða og átti stóran þátt í því að heimamenn leiddu þó enn 70-66 fyrir lokaátökin.

Fjögur stig er auðvitað engin forysta og stemmningin öll gestamegin. Nánast má telja upp allt Haukaliðið sem fylgdi frábærum leik Oliver eftir  og um miðjan leikhlutann voru Haukarnir komnir 72-83 yfir eftir geggjaða boltahreyfingu og glæsilegan þrist frá Hilmari Hennings. Þrátt fyrir þrista frá Bracey og Oddi sem kom muninum niður í 2 stig í blálokin var of seint í rassinn gripið og eftir allnokkuð af vítaskotum lauk leik með frábærum 88-95 sigri Hauka.

Maður leiksins

Marques Oliver er vafalaust maður leiksins. Hann skoraði 28 stig, tók 13 fráköst og skilaði 39 framlagspunktum. Frábær leikur hjá honum.

Kjarninn

Menn hafa haft dulitlar áhyggjur af Haukaliðinu fyrir tímabilið. Þær hafa kannski verið óþarflega miklar og jafnvel pirrað suma oggupons. Það er nú sennilega staðreynd að liðið er ekki jafn sterkt og á síðasta tímabili en þeir leikmenn sem eru í liðinu eru engir aukvisar og margir hverjir afar efnilegir. Ívar benti á í viðtali eftir leikinn að Haukar eiga meira að segja landsliðsmann inni. Kannski verða Haukarnir spútniklið tímabilsins eftir allt saman, þó slíkar fullyrðingar verði að teljast djarfar eftir einn leik!

Valsmenn þurftu að horfast í augu við Móra gamla. Fín byrjun og margir að leggja í púkkið, liðið náði rúmlega 10 stiga forystu og allt gott að frétta. Svo var eins og fótunum væri kippt undan þeim og í raun enduðu leikar með frekar sannfærandi tapi þrátt fyrir ágætar tilraunir til að redda hlutunum í blálokin. Hvað er málið? Pass.

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Torfi Magnússon)

Umfjöllun / Kári Viðarsson

Fréttir
- Auglýsing -