spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÓvæntar hetjur Grindvíkinga

Óvæntar hetjur Grindvíkinga

Domionsdeild karla hófst í kvöld og í Grindavík mættu heimamenn nýliðum Breiðabliks. Grindvíkingar hafa ekki verið neitt sérstaklega sannfærandi á undirbúningstímabilinu og Blikar voru líka í ströggli og þurftu að skipta Kananum út rétt fyrir mót og tefla fram Christian Coville sem lék sl. tvö tímabil með Snæfelli.   Undirbúningstímabil hefur aldrei talið fyrir neinu eins og Pool-arar ættu að vita eftir mögur síðustu ár þar sem þeir hafa reyndar alltaf hampað sumar/haust-titlinum.

Ekki var að sjá á Blikum í byrjun að einhver sviðsskrekkur væri í þeim og var vörn þeirra hörkugóð sem skilaði sér í 2-8 forystu eftir 4 mínútur en í leiðinni kostaði það villur og voru heimamenn komnir í skotrétt. Eflaust slaknaði aðeins á vörninni við þetta og heimamenn gengu aðeins á lagið og virtust ætla fara með forystuna inn í 2. leikhluta eftir að Óli Ól kom Grindavík í 19-12 með flottri þriggja stiga körfu en Blikarnir áttu síðustu 8 stigin og leiddu því 19-20.

Blikarnir komu af miklu meiri krafti en heimamenn eftir hléið og voru fljótt komnir í 25-30 forystu. Oft hefur loðað við heimamenn að fara á sama level og andstæðingurinn, sérstaklega þegar hann á fyrirfram að vera veikari og var það svo sannarlega raunin til að byrja með. Heimamenn vöknuðu svo aðeins og allt nokkurn veginn í járnum. Sigtryggur Arnar sem hafði haft tiltölulega hægt um sig tók síðan rispu í lokin og setti 2 þrista og heimamenn löbbuðu inn í hálfleikste-ið með 1 stig forystu, 47-46.

Atkvæðamestir heimamanna í fyrri hálfleik voru Hollendingurinn Jordy Kuiper með 8 stig og 7 fráköst og Arnar sem kom sér í 11 stig með þristunum tveimur í lokin.

Hjá Blikunum var Snorri Hrafnkels atkvæðamestur og var kominn með 17 framlagspunkta (12 stig og 5 fráköst) og Arnór Hermanns 10 (6 fráköst og 3 stoðsendingar)

Sami barningur og barátta var í byrjun seinni hálfleiks, heimamenn aðeins á undan. Eftir 5:30 tók Jóhann þjálfari leikhlé til að reyna koma meiri broddi í sína menn en m.v. undanfarann var ljóst að þessi leikur myndi ekki ráðast fyrr en á lokamínútunum. Leikhléið gerði ekkert sérstaklega mikið fyrir heimamenn og áður en varði voru nýliðarnir búnir að taka frumkvæðið og komnir í 7 stiga forystu, 65-72. Löbbuðu inn í lokabardagann, 68-72.

Christan Coville átti tilþrif leikins í byrjun fjórða leikhluta þegar hann braust í gegn um vörnina, tróð og fékk auk þess villu! Nýtti reyndar ekki vítaskotið en bætti fyrir það skömmu seinna og setti niður flottan þrist. Blikarnir komnir í 7 stig forystu þeir algerlega í bílstjórasætinu. Jói þjálfari tók þá bæði Vinson og Liapis út af en þeir voru búnir að vera frekar slappir. Jordy hins vegar virkilega góður, sítalandi og þegar hann setti þrist niður og kom heimamönnum í 80-79 þá vöknuðu grindvískir aðdáendur heldur betur og allt ætlaði að verða vitlaust þegar einn nýliðinn, Hlynur Hreins setti flottan þrist og kom heimamönnum í 83-79. Grindavík sem sagt með 11-0 run! Blikum var þarna fyrirmunað að skora og ótrúlegt að Pétur skyldi ekki taka leikhlé! Arnar bætti 5 stigum við þetta run og staðan allt í einu orðin 88-79! Blikarnir komust loksins á blað en það var einfaldlega orðið of seint og heimamenn sigldu ótrúlega öruggum sigri miðað við hvernig staðan var nokkrum andartökum fyrr, í höfn. Lokatölur 95-86.

Besti maður Grindavíkur, kannski bara sá langbesti var Hollendingurinn Jordy Kuiper með 24 stig, 12 fráköst og 4 stoðsendingar (30 framlagspunktar). Hann er ótrúlega duglegur í vörninni, sítalandi og skilaði þessum líka flottu tölum. Sigtryggur Arnar er einfaldlega ótrúlega góður í þessari íþrótt! Hann er greinilega ekki kominn í sitt besta form en inn á milli tók hann frábærar rispur og endaði með 22 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar. Óli Ól var líka flottur, með 15 stig og 8 fráköst en ég myndi segja að hetjur Grindavíkur hafi verið Jóhann Árni og Hlynur en þeir breyttu algerlega gangi leiksins þegar þeir komu inn á fyrir Vinson og Liapis í stöðunni 72-79! Þessi viðsnúningur í lokin fer að stórum hluta til á debet-reikning þeirra.

Hjá Blikunum skilaði Snorri Hrafnkels flestum framlagspunktum eða 21 (16 stig og 7 fráköst). Ég hreifst mjög af Arnóri Hermanns en hann líkist Martin bróður sínum glettilega mikið oft á tíðum! Átti margar fallegar sendingar undir körfuna og á svo sannarlega framtíðina fyrir sér. M.v. framlagspunkta Kana Blikanna, Christian Coville en þeir voru „heilir“ 6, má láta sér detta í hug að Pétur þjálfari sé mættur á netið að skoða Kana…. Hann skoraði 18 stig en nýtti einungis 7 af 19 skotum sínum, gaf enga stoðsendingu og tók 4 fráköst. Sem eini útlendingur nýliða þá eru þessar tölur langt frá því að vera nægjanlega góðar og það veit hann væntanlega sjálfur og kemur vonandi sterkari til baka – nema að frímerki verði komið á bossann áður…. „Spekingarnir“ hafa fyrirfram dæmt Blikana niður og spá sumir þeim engum sigri í vetur en með svona spilamennsku í kvöld þar sem leikið var á fullu allan tímann og betri frammistöðu á ögurstundu, þá eiga þeir eftir að spjara sig fínt held ég.

 

Tölfræði leiks

Myndir 

 

Umfjöllun, viðtöl / Sigurbjörn Daði Dagbjartsson

Myndir / Bjarni Antonsson

 

Viðtöl:

 

 

Fréttir
- Auglýsing -