spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaBreiðablik glopraði frá sér sigri - Snæfell vann í tvíframlengdum leik

Breiðablik glopraði frá sér sigri – Snæfell vann í tvíframlengdum leik

Fyrir leikinn

Breiðablik og Snæfell mættust í fyrstu umferð Domino’s deildar kvenna í kvöld kl.19:15 í Smáranum. Fyrir leikinn var ljóst að Berglind Gunnarsdóttir og Andrea Björt Ólafsdóttir væru ekki með Snæfell og Blikamegin var Bryndís Hanna Hreinsdóttir ekki á bekknum.

Gangur leiksins

Það virtist vera mikill skrekkur í báðum liðum enda gat hvorugt lið skorað í þó nokkurn tíma. Þó að liðin næðu að lokum að setja stig á töfluna þá var skotnýtingin arfaslök framan af og margir stöplar í báðum liðum búnir að taka nokkur skot áður en það fyrsta fór niður. Staðan í hálfleik var 23-21 fyrir Blikum, staða sem væru ekki óalgengt að sjá eftir 10 mínútur í stað 20. Blikastelpur voru baráttuglaðari framan af en Snæfell náði að klóra í bakkann fyrir hálfleik.

Í seinni hálfleik náðu Snæfellsstelpurnar fyrstu forystu sinni í leiknum eftir nokkrar mínútur og liðin hófu að skiptast á að vera með forystuna. Stigaskorið var eðlilegara eftir hálfleikinn og liðin skoruðu u.þ.b. tvöfalt fleiri stig í seinni hálfleiknum en í þeim fyrri.

Á seinustu mínútum venjulegs leiktíma komust Snæfellingar fram úr og Blikar náðu aðeins að merja framlengingu með ævintýralegum buzzer beater frá Sóllilju Bjarnadóttur. Í fyrstu framlengingunni voru liðin nokkuð jöfn en allt loft virtist fara úr Breiðablik eftir að Kelly Faris fór út af með sína fimmtu villu. Lokastaðan varð 80-93 fyrir Snæfell eftir tvíframlengdan leik sem að Blikar leiddu nær allan tímann.

Lykillinn

Kristen McCarthy sýndi hvað hún er mikilvæg fyrir sitt lið og hversu miklu máli skiptir að halda ótrauð áfram að skjóta. Hún hitti aðeins úr þremur skotum af 15 í fyrri hálfleik (20% skotnýting) en í seinni hálfleik hitti hún úr 10 af 16 skotum (62,5% nýting). Hún lauk leik með 34 stig, 16 fráköst og 3 stolna bolta. Í liði Breiðabliks var Isabella Ósk Sigurðardóttir framlagshæst með 9 stig, 18 fráköst, 4 stolna bolta og 4 varin skot.

Tölfræðin

Skotnýting liðanna var hörmuleg í fyrri hálfleiknum en Snæfell hitti aðeins úr 22,2% skota sinna á fyrstu 20 mínútunum (6/27) og Blikar voru varla skárri með 28,1% skotnýtingu (9/32). Snæfell rétti þó aldeilis úr kútnum í seinni hálfleik og framlengingunum og settu helming skota sinna (25/50, 50%) á meðan að Blikar bættu sig ekki jafn mikið (39,6%, 19 af 48 í skotum). Að öðru leyti voru liðin nokkuð jöfn tölfræðilega séð.

Kjarninn

Blikar mættu með mikinn kraft inn í leikinn en vantaði aðeins forystuna og kúlið undir lokin til að slútta leiknum. Þær úr Hólminum hafa úr þremur erlendum leikmönnum að moða og tveir þeirra voru nokkuð góðir í kvöld. Kelly Faris var ágæt fyrir Blika en það er erfitt að sækja sigur þegar þrír íslenskir leikmenn í liðinu eru með betra framlag en atvinnumaður liðsins.

Samantektin

Bæði lið komu að einhverju leyti á óvart í leiknum en reynsla Snæfellinga og fagmennska hafði að lokum vinninginn. Blikar gátu gert út um leikinn í venjulegum leiktíma eða í fyrstu framlengingunni en gerðu það ekki. Gestirnir sýndu í þessum leik og að þær geta unnið lið þrátt fyrir að vanta nokkra leikmenn. Breiðablik er betra lið en undirritaður þorði að vona en þær verða að spila vel í heilar 40 mínútur ef að þær vilja vinna lið eins Snæfell.

Fréttir
- Auglýsing -