Keflavík vann titilinn meistarar meistaranna annað árið í röð er liðið vann Hauka í hörku leik. Leikurinn var gríðarlega kaflaskiptur en bikarmeistararnir stóðu uppi sem sigurvegarar að lokum.
Gangur leiksins:
Keflavík mætti heldur betur til leiks og náði 17-4 forystu snemma í leiknum. Haukarnir bitu hinsvegar frá sér og náðu að jafna og komast yfir fyrir hálfleikinn. Staðan í hálfleik var 39-38.
Það varð ansi ljóst snemma í seinni hálfleik að þessi leikur yrði spennandi og líklegt var að hann myndi ekki ráðast fyrr en á lokasprettinum. Bryndís Guðmundsdóttir og Brittanny Dinkins tóku þá leikinn yfir og tókst að sigla sigrinum heim með góðu áhlaupi um miðjan fjórða leikhluta. Lokastaðan 77-83 fyrir Keflavík.
Besti leikmaðurinn:
Bryndís Guðmundsdóttir átti frábæra innkomu í lið Keflavíkur. Hún var með 18 stig, 6 fráköst og 3 stoðsendingar. Þá var Brittanny Dinkins öflug að vanda með 26 stig og 5 stolna bolta. Hjá Haukum var Lele Hardy sterk með 23 stig.
Kjarninn:
Keflavík tekur þar með fyrsta titil tímabilsins og varði þennan titil meistari meistaranna. Það var alvöru haustbragur á liðunum en leikurinn var gríðarlega kaflaskiptur. Keflavík byrjaði vel en vörn liðsins datt verulega niður í öðrum og þriðja leikhluta. Eitt af stóru spurningamerkjum Keflavíkurliðsins var hvernig Bryndís kæmi til baka úr barneignarleyfi, svarið er strax komið en hún var gríðarlega öflug í dag.