spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaRagna Margrét tekur sér frí frá körfubolta

Ragna Margrét tekur sér frí frá körfubolta

Landsliðskonan Ragna Margrét Brynjarsdóttir mun ekki hefja tímabilið í Dominos deild kvenna á vellinum þegar hún hefst eftir nærri viku. Höfuðmeiðsli hafa haldið henni frá körfubolta í nærri sjö mánuði.

Nokkur óvissa hefur verið um hvar Ragna Margrét myndi leika á næstu leiktíð en þegar Karfan ræddi við hana fyrr í dag sagðist hún vera búin að taka ákvörðun um framhaldið. „Ætli það sé ekki best að segja að ég sé í smá pásu. Ég er samningslaus og er ekki tilbúin að skuldbinda mig strax.“ sagði Ragna Margrét og bætti við:

„Ég fékk sem sagt heilahristing í febrúar í leik á móti Snæfelli sem hafði þó nokkarar aukaverkanir í för með sér. Eða kannski er það frekar vægt til orða tekið. Ég hef ekki snert bolta síðan þá og þetta hafði áhrif á allt daglegt amstur, t.d. skóla og vinnu. Ég get samt ekki kvartað núna ég er á mjög góðu skriði í minni endurhæfingu undir leiðsögn sjúkraþjálfara og stefni á að spila aftur.“

Ég hef ekki snert bolta síðan þá og þetta hafði áhrif á allt daglegt amstur, t.d. skóla og vinnu.

Ragna Margrét hefur leikið með Stjörnunni síðustu þrjú tímabil en liðið rétt missti af úrslitakeppninni á síðustu leiktíð í hendur Skallagríms.

„Mig er aðeins farið að klæja í puttana og langar að fara að komast í bolta aftur. Smá erfitt að vita af fyrsta leik í deildinni á næstu dögum og ég sé ekki að fara að vera með. Ég er búin að læra að þetta eru allt öðruvísi meiðsli og endurhæfing en við öllum öðrum meiðslum sem ég hef lent í. Það er ekki hægt að setja tímasetningar á neitt, maður þarf að vera rosalega þolinmóður og sjá hvað líkaminn og höfuðið leyfir. Það getur verið sjúklega erfitt og leiðinlegt stundum. Ég skaut mig aðeins í fótinn stuttu eftir að ég fékk höggið, fór of geist af stað. Ég ætlaði mér að ná inn í úrslitakeppnina og setti mér markmið sem ég hafði enga stjórn á.“

Ragna Margrét eftir höfuðhöggið í febrúar síðastliðnum. Mynd/ Sumarliði Ásgeirsson

Mikil umræða hefur verið síðustu misseri um höfuðhögg í íþróttum en nokkrir leikmenn hafa þurft að leggja skónna á hilluna vegna slæmra höfuðhögga. Auk þess voru nokkur dæmi um leikmenn í Dominos deildunum sem voru frá í langan tíma vegna slíkra meiðsla. Ragna Margrét hefur nokkur ráð fyrir leikmenn sem gætu lent í sömu stöðu

„Ef það er einhver að lesa þetta sem hefur lent nýlega fengið heilahristing þá mæli ég með leiðbeiningum sem eru inn á heimasíðu KSÍ, teknar saman af Reyni Björnssyni lækni.Ég mæli líka með að þú látir einhvern nákominn lesa þær með þér. Maður getur verið er svo ruglaður á þessum tímapunkti, rétt eftir högg að það er takmarkað hvað maður getur stundum lesið eða meðtekið upplýsingar. Það var þannig í mínu tilfelli.“

Ragna Margrét á að baki 43 landsleiki fyrir Íslands hönd og hefur verið í stóru hlutverki þar síðustu ár. Fregnirnar ættu því að vera mikið áfall fyrir landsliðið auk Stjörnunnar. En hvenar má búast við að sjá Rögnu Margréti á parketinu?

„Það er mjög erfitt að setja einhverja tímasetningu á hvenær ég kem aftur. Er að reyna að koma mér undan því að setja mér markmið sem ég hef ekki stjórn á. Það eina sem ég hef ákveðið núna er að taka stöðuna á mér í kringum áramót, kannski verð ég tilbúin þá, kannski ekki.“

Fréttir
- Auglýsing -