Liðin í efstu deilum landsins eru á fullu þessa dagana að undirbúa sig fyrir komandi átök. Nokkur fjöldi af æfingaleikjum eru í gangi og er spennandi að sjá hvernig liðin koma undan sumri.
Í Smáranum tók Breiðablik á móti Haukum í æfingaleik í meistaraflokki karla. Blikar voru með fullskipað lið en Haukar voru án þriggja landsliðsmanna og erlends leikmanns.
Segja má að Haukar hafi aldrei séð til sólar í þessum leik, Blikar náðu fljótlega forystu og voru strax komnir 30 stigum yfir í hálfleik. Blikar gjörsamlega völtuðu yfir Hauka í leiknum og hófu þriggja stiga skotsýningu í fjórða leikhluta. Lokastaðan var 115-58 fyrir Blikum.
Lið Breiðabliks virðist vera í góðum gír fyrir komandi tímabil en ljóst er að breiddin er mikil í liðinu. Snorri Vignisson og Erlendur Ágúst voru með 17 stig hvor, Jeremy með 15 stig og Ragnar Jósef með 14 stig. Þá var nýr leikmaður Blika Arnór Hermannsson með 7 fráköst og 5 stoðsendingar.
Haukar voru án Hauks Óskarssonar, Kristjáns Leifs og Hjálmars Stefánssonar auk þess sem Marquese Oliver er ekki kominn til liðsins. Matic Macek spilaði með liði Hauka í kvöld en hann lét lítið til sín taka.
Ert þú með úrslit úr æfingaleik? Endilega sendu okkur línu á [email protected]
Mynd/ Bjarni Antonsson