Framherji Stjörnunnar Marvin Valdimarsson hefur lagt úrvalsdeildarskóna á hilluna. Þetta staðfesti leikmaðurinn í samtali við Körfuna. Sagði hann ennfrekar að hann myndi líklega taka slaginn með Álftanesi í annarri deildinni í vetur, en þar hittir hann fyrir fyrrum þjálfara sinn hjá Stjörnunni í Hrafni Kristjánssyni, sem tók við liðinu fyrir þetta tímabil.
Marvin lék sína fyrstu leiki í meistaraflokki með Selfossi tímabilið 1996-97. Er meistaraflokksferill hans þá kominn á sitt 22. ár. Eftir nokkurra ára veru á Selfossi færði hann sig yfir til Hamars í Hveragerði árið 2001. Þar lék hann allt til ársins 2010, en þá fór hann til Stjörnunnar í Garðabæ, þar sem hann hefur leikið allar götur síðan.
Með Stjörnunni sigraði Marvin bikarkeppni KKÍ í tvö skipti (2013 & 2015). Þá var hann í fjögur skipti í röð valinn til þess að leika í Stjörnuleiknum (2011-2014) Einkar öflugur sóknarmaður, sem að meðal annars skilaði 31 stigi að meðaltali í leik fyrir Hamar tímabilið 2009-10.
Karfan vill nota tækifærið og þakka Marvin fyrir ómælda ánægju í gegnum árin, hrósa honum fyrir frábæran feril og óska honum velfarnaðar í því verkefni að koma Álftnesingum upp úr annarri deildinni í vetur.