spot_img
HomeFréttirStólarnir í Úrslit!

Stólarnir í Úrslit!

Það var rafmögnuð spenna í laugardalshöll þegar að seinni undanúrslitaleikurinn í Maltbikar karla fór fram. Fyrr um daginn höfðu KR-ingar unnið sannfærandi sigur gegn 1. Deildar liði Breiðabliks. Eftir jafna byrjun þá sigu Tindastólsmenn hægt og bítandi framúr og var staðan eftir fyrsta leikhluta 21 – 13 Tindastól í vil. Lykilmenn Hauka voru að hitta illa í 2. leikhluta og hélst munurinn áfram svipaður, og var staðan 31 – 37 í hálfleik.

 

Síðari hálfleikur var að mörgu leiti svipaður og hinn fyrri, mikill barningur en Stólarnir samt alltaf með yfirhöndina, það var svo í fjórða leikhluta sem að Haukar náðu að minnka muninn niður í 4 stig en þá sögðu norðanmenn hingað og ekki lengra og kláruðu leikinn með 10 stigum, 85 – 75.

 

Sigtryggur Arnar Björnsson var langatkvæðamestur á vellinum með 35 stig og 11 fráköst og áttu Hafnfirðingar engin svör við honum. Hjá Haukunum setti Paul Anthony Jones 20 stig og tók 5 fráköst.

 

 

 

Kjarninn

 

Sauðkrækingar voru skrefinu á undan í allt kvöld og létu forystuna aldrei af hendi. Þeir voru virkilega öruggir í sínum sóknaraðgerðum og þrátt fyrir nokkur smá áhlaup Haukanna þá ógnuðu Haukar aldrei að ráði þó svo að þeir kæmust nálægt nokkrum sinnum þá beið alltaf stórt skot eða sterkt dræv hjá norðanmönnum hinum megin á vellinum.  Tindastólsmenn héldu svo ró sinni í lokin og sigldu heim nokkuð öruggum sigri.

 

 

Tölfræðin lýgur ekki

 

Það þarf ekki að leita neitt sérstaklega langt eftir stóra muninum á tölfræðinni í kvöld, Stólarnir skutu boltanum mun betur fyrir utan þriggja stiga línuna eða 12 af 29 fyrir 41% gegn 7 af 34 hjá Haukum sem kemur út sem 20% nýting, ekki gott. Önnur tölfræði var mjög áþekk hjá liðunum svo að þriggja stiga skotin gerðu gæfumuninn. Vörn Tindastólsmanna sást ekki á tölfræðinni en á skilið tilnefningu hér, þeir nýttu líkamlegann styrk sinn mjög vel og Haukarnir réðu ekki við það.

 

 

Hetjan

 

Sigtryggur Arnar Björnsson var alger yfirburðamaður á vellinum í kvöld. Hann lauk leik með 35 stig, 12 fráköst, 3 stoðsendingar, 2 stolna bolta og 2 varin skot. Hann tapaði svo einungis 2 boltum. Geggjaður leikur hjá Sigtryggi sem sýndi allar sínar bestu hliðar í kvöld bæði varnarlega og sóknarlega. Hann var á stóra sviðinu í kvöld og stóð svo sannarlega undir því, það bíður svo enn stærra svið á laugardaginn þegar þeir mæta Íslands- og bikarmeisturum KR.

 

 

Týndir lykilmenn

 

Haukar hefðu sennilega glaðir viljað fá meira framlag frá sumum af sínum lykilmönnum í kvöld, Haukur Óskarsson átti vondann leik allt frá byrjun með 2 af 11 í skotum, Finnur Atli var ósýnilegur þangað til í lokaleikhlutanum þar sem lifnaði aðeins yfir honum og Breki Gylfason setti 0 stig á korteri. Það hefði munað um meira framlag frá þessum strákum í kvöld. Kári Jónsson hafði einnig mjög hægt um sig eftir ágætan fyrsta leikhluta.

 

Tölfræði leiksins

 

Umfjöllun / Sigurður Orri Kristjánsson
Mynd / Bára Dröfn

Fréttir
- Auglýsing -