Stjarnan og Breiðablik mættust í kvöld í Ásgarði eftir bikarhelgarfríið. Bæði lið höfðu tapað seinasta deildarleiknum sínum og vildu því rétta af kútinn. Stjarnan hafði betur eftir hörkuleik og vann með góðri frammistöðu á lokamínútunum, 72-63.
Leikurinn var jafn og spennandi í fyrri hálfleik og munurinn á liðunum var aldrei meiri en fimm stig framan af. Hart var barist og nokkrar stelpurnar voru komnar á grátt svæði í villum fyrr en þær vildu. Staðan í hálfleik var 35-33, heimamönnum í vil.
Breiðabliks stelpurnar komu mjög flatar út úr hálfleiknum á sama tíma og Stjarnan fór að fíla sig betur í seinni hálfleik en þær hófu þriðja leikhlutann með 15-2 áhlaupi á fyrstu þrem mínútunum. Blikarnir hristu þá af sér slenið og fóru hægt og rólega að laga stöðuna. Á sama tíma lentu margar framlagshæstu stelpur Stjörnunnar í ennþá frekari villuvandræðum svo Pétur Már þjálfari neyddist til að fara djúpt á bekkinn sinn. Þær reynsluminni stóðu sig ágætlega en með harðri vörn og þrautseigju tókst gestunum að minnka muninn í tvö stig, 63-61, þegar lítið var eftir. Stjarnan kláraði síðan leikinn 72-63 með góðri baráttu og sterkum vilja á lokasprettinum.
Þáttaskil
Stjarnan reif sig í gang á lokamínútunum og náðu að skora níu stig gegn tveimur frá Blikum og því fór sem fór. Blikar höfðu verið að taka gott áhlaup og komið stöðunni í tveggja stiga mun með góðri vörn og baráttu. Þá virtust Blikarnir springa aðeins á limminu og Stjarnan gekk á lagið og vann leikinn.
Sigurframmistöður
?Danielle Rodriguez átti góðan leik að vanda með 33 stig, 15 fráköst, 3 stoðsendingar, tvo stuldi og eitt varið skot. Bryndís Hanna Hreinsdóttir átti líka flottan leik, en hún var með 13 stig, 9 fráköst (met á þessu ári og jafnar frákastametið sitt), 2 stoðsendingar og 17 í framlag (met á þessu ári og jafnar framlagsmetið sitt). Hún virðist öll að vera koma til eftir höfuðmeiðsl sín fyrr á tímabilinu og mun reynast liðinu vel.
Tölfræðin lýgur ekki
Breiðablik hittu á ömurlegan skot dag og þrátt fyrir að taka nóg af sóknarfráköstum (20 sóknarfráköst) og að þær pössuðu upp á töpuðu boltana sína (aðeins 11 stykki) þá gat það ekki bætt upp fyrir lélega skotnýtingu. Blikar hittu aðeins úr 3 af 22 þriggja stiga skotum á meðan að Stjarnan helst góð allan tímann og hittu betur úr skotunum sínum.
Kjarninn
Þá eru Stjörnustelpur aðeins búnar að rétta sig af og þjálfari þeirra mjög ánægður með baráttuviljann. Sama má ekki segja um Breiðablik, en þær fóru illa með gott tækifæri til að vinna á útivelli gegn liði sem að þær gætu allt eins verið að berjast við um loka-úrslitakeppnissætið þegar tímabilinu lýkur. Í bili hefur Stjarnan vinninginn.
Viðtöl eftir leikinn:
Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson
Myndir / Ólafur Þór Jónsson