spot_img
HomeFréttirÞing KKÍ 2023 hafið

Þing KKÍ 2023 hafið

Körfuknattleiksþing KKÍ 2023 er hafið og lýkur með atkvæðagreiðslum og kosningum seinna í dag.

Formaður KKÍ, Hannes S. Jónsson, flutti ávarp um kl.10:00 og ræðuna í heild sinni má finna hér.

Í stuttu máli þá talaði Hannes um þröngan fjárhag sambandsins en að þrátt fyrir það hefði aldrei náðst jafn góður árangur hjá landsliðunum og einmitt nú. Þá nýtti hann tækifærið og minntist á það að körfubolti á Íslandi hefði verið færður í afreks-flokk B hjá afreksnefnd ÍSÍ þrátt fyrir þennan árangur. Hann lýsti yfir stuðningi KKÍ við Úkraínu og að Rússar og Hvít-Rússar ættu ekki að fá að taka þátt í alþjóðakörfubolta fyrr en þeir hættu stríðsrekstri gagnvart Úkraínu. Hannes ræddi samningsmál KKÍ við dómara og að það ætti að leysa það mál sem fyrst. Að lokum þakkaði hann sjálfboðaliðum í öllum félögum og í sambandinu, en án þeirra væri karfan ekki komin jafn langt og raun bæri vitni.

Heiðranir fóru fram eftir það og 12 manns voru sæmd silfurmerki KKÍ og 6 gullmerki KKÍ.

Gestir tóku til máls eftir það og þar fóru fremstir formaður UMFÍ, Jóhann Steinar Ingimundarson, sem ræddi forvarnargildi íþrótta ásamt öðru, framkvæmdarstjóri ÍSÍ, Andri Stefánsson, sem stiklaði á stóru um fjármögnun afreksstarfs og byggingu nýrrar þjóðarhallar áður en hann veitti tveimur aðilum silfurmerki ÍSÍ og einum gullmerki ÍSÍ.

Farið var yfir reikninga KKÍ undir dyggri forystu Guðna Hafsteinssonar, fráfarandi gjaldkera, og síðan var þingtillögum skipt niður á nefndir fyrir nefndarstörf eftir hádegi.

Framboð voru kynnt til stjórnar KKÍ og margir spennandi einstaklingar þar hafa boðið sig fram til aðstoðar stjórnar KKÍ.

Fyrir áhugasama er hægt að fylgjast með þinginu hér, en fleiri frétta er að vænta af þinginu seinna í dag.

Fréttir
- Auglýsing -