Kristinn Pálsson sem kom til Njarðvíkinga frá háskólaliði Marist mun ekki leika með liðinu nú í kvöld gegn ÍR. Ástæðan er sú að FIBA sem hafa samþykkt félagaskipti hans til Njarðvíkinga hafa afturkallað keppnisleyfið á meðan ákveðið mál fer sína leið í kerfinu.
Þannig er að lið Stella Azzura, unglingalið sem Kristinn spilaði með í tvö ár eru að heimta uppeldisgreiðslur fyrir leikmanninn og vísa í reglur FIBA. Stjórnarmenn Njarðvíkinga segja í samtali að þessar heimtur frá Ítalíu séu á sandi byggðar og í raun ætti Njarðvík að fá uppeldisgreiðslur ef einhver ætti að vera að heimta peninga. Reglur FIBA hinsvegar eru þess valdandi að málið þarf að fara í gegnum "kerfið" og það tekur sinn tíma. Á meðan þarf Kristinn að verma tréverkið í Ljónagryfjunni.
Von er hinsvegar á að málið leysist fljótlega og að þetta yrði þá eini leikurinn sem Kristinn yrði frá.