spot_img
HomeFréttirLeiknir náðu mikilvægum sigri í hörkuleik

Leiknir náðu mikilvægum sigri í hörkuleik

Leiknir tók á móti Íþróttafélagi Breiðholts (ÍB) í dag í öðrum leik liðanna í deildarkeppni 2. deildar. Heimaliðið náði fljótlega forskoti en villuvandræði settu strik í reikninginn. Þeir gátu þó klárað leikinn á lokametrunum og sigldu heimasigri í höfn, 75-69.
 

Gangur leiksins

Leiknir hófu leikinn frá fyrstu mínútu, enda skoruðu þeir beint úr uppkasti leiksins þegar Dzemal Licina sló boltanum fram beint í hendurnar á Einari Bjarna Einarssyni. Áfram héldu heimamenn að spila góða vörn og fína sókn og náðu stöðunni upp í 19-9 á sex mínútum. Þá hófu villuvandræðum að kræla á sér en dómararnir dæmdu 8 villur á Leikni á síðustu fjórum mínútum fyrsta leikhlutans. Breiðhyltingarnir í ÍB fengu vítaskot í næstum því hverri einustu sókn og settu 8 af 11 þeirra. Leikhlutanum lauk 26-19, Leikni í vil.

ÍB-ingar höfðu undir lok fyrsta leikhlutans sett upp í svæðisvörn sem Leiknismönnum gekk ekki nægilega vel að brjóta í fyrstu. Þegar fór að líða á annan leikhlutann breyttu þeir hins vegar um taktík og gerðu 9-2 áhlaup á seinustu fjórum mínútum fyrri hálfleiksins, þar sem undirritaður skoraði m.a. 6 stig í röð á seinustu tveim mínútunum. Staðan í hálfleik: 43-29, heimaliðinu í vil.

Þriðji fjórðungurinn einkenndist af jöfnu spili beggja megin en villuvandræði Leiknismanna voru ekki búinn og nokkrir byrjunarliðsmenn neyddust til að hvíla sig lengur á bekknum en þörf væri á. Gestirnir gengu á lagið og með góðum leikhluta hjá öllum leikmönnum þeirra unnu þeir sinn fyrsta leikhluta í leiknum; 16-21. Staðan var því 59-50 þegar seinasti leikhlutinn tók við.

Lokafjórðungurinn var æsispennandi og ÍB hélt áfram að saxa á forskot Leiknis þangað til staðan var orðin 66-66 og heimamenn tóku sitt annað leikhlé í seinni hálfleiknum. Eitthvað virðist það leikhlé hafa dugað vegna þess að Þorbergur Ólafsson setti í framhaldinu af því einn stærsta þrist leiksins og Kristinn Loftur Einarsson kláraði síðan leikinn með sex stigum í röð. Úr stöðunni 66-66 skoruðu gestirnir aðeins 3 stig gegn 11 stigum Leiknis og leiknum lauk því með sigri heimaliðsins, 75-69.
 

Maður leiksins

Kristinn Loftur Einarsson, aðstoðarþjálfari Leiknis, var sá sem tók mest til sín í þessum leik, en hann skoraði 22 stig ásamt því að valda ÍB vandræðum undir körfunni, en hann sótti þó nokkur vítaskot í leiknum. Eftir að hann dreif ekki á hringinn í fyrsta vítaskotinu sínu í leiknum hysjaði hann upp um sig og setti næstu 8 af 12 vítum sínum í öllum leiknum. Vítin hans reyndust heillarík á lokakaflanum, en hann setti öll 6 vítaskotin sín í lokafjórðungunum.
 

Villuvandræði

Eins og áður sagði urðu villurnar ansi margar hjá heimamönnum, en þrír byrjunarliðsmenn fengu 5 villur og einum þeirra var vikið úr húsi eftir að hann mótmælti fyrri tæknivillu sinni fyrir “flopp”. Hann mátti ekki einu sinni horfa á liðið sitt vinna leikinn, en dómarinn bað hann að víkja úr dyragættinni á áhorfendapöllunum eftir að hann hafði sturtað sig og kælt sig niður. Dómarar leiksins dæmdu þrjár tæknivillur í leiknum og eina óíþróttamannslega villu, allar á Leiknismenn.
 

Kjarninn

Þá hafa Leiknismenn aftur komið sér upp í 50% sigurhlutfall (5/5) eftir grátlegt fjögurra stiga tap gegn toppliði KV um seinustu helgi. Þeir eiga tvo mikilvæga leiki framundan gegn Ármanni og Reyni Sandgerði og verða að taka báða til að eiga betri möguleika á að komast í úrslitakeppni 2. deildar. Íþróttafélag Breiðholts situr aftur á móti sem fastast á botni deildarinnar og verða brátt að fara girða sig til að forðast fall.
 

Tölfræði:

Leiknir

Kristinn Loftur Einarsson 22 stig, Einar Bjarni Einarsson 15 stig, Dzemal Licina 9 stig, Helgi Ingason 8 stig, Gunnar Arnar Gunnarsson 7 stig, Helgi Hrafn Ólafsson 6 stig, Þorbergur Ólafsson 5 stig, Ingvi Guðmundsson 3 stig, Sigurður Orri Kristjánsson 0 stig, Sigurður Jakobsson 0 stig.
 

Íþróttafélag Breiðholts

Tómas Aron Viggósson 22 stig, Skúli Kristjánsson 18 stig, Haukur Gunnarsson 9 stig, Ísak Máni Wium 9 stig, Alexander Dungal 5 stig, Jón Orri Kristinsson 4 stig, Davíð Fritzon 2 stig.

 
Umfjöllun / Helgi Hrafn Ólafsson
Fréttir
- Auglýsing -