Valsmenn tóku á móti Njarðvíkingum að Hlíðarenda og þurftu bæði lið á stigunum að halda í kvöld enda tímabilið komið á seinni helminginn og línur farnar að skýrast. Valur var fyrir leikinn í 10. sæti deildarinnar með 4 stigum meira en Þórsarar frá Akureyri en Njarðvík var í 5. sæti í baráttu um heimavallarrétt í úrslitakeppninni. Njarðvíkingar töpuðu naumlega í síðasta leik fyrir ÍR ingum en Valsmenn töpuðu fyrir KR. Fremur illa var mætt á leikinn og getur meira en verið að tímasetning leiksins spili þar inn í.
Eftir jafnan fyrri hálfleik þá tóku Suðurnesjamenn öll völd á vellinum í 3ðja leikhluta og gjörsamlega völtuðu yfir lánlausa Valsara. Lokatölur: 73 – 106.
Stigahæstur Njarðvíkinga var Terrell Vinson sem skoraði 30 stig og tók 10 fráköst en hjá heimamönnum var Urald King atkvæðamestur með 16 stig og 10 fráköst.
Kjarninn
Byrjun leiksins var mjög einkennileg, Valsmenn skoruðu fyrstu 7 stigin, þá skoruðu Njarðvíkingar 14 stig í röð og svo settu Valsarar 10 stig í röð áður en leikurinn jafnaðist út. Það var töluvert jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik en samt voru Valsmenn skrefinu á undan. Í síðari hálfleik þá byrjuðu þriggja stiga skot Njarðvíkinga að skila sér og voru menn eins og Maciek Baginski og Oddur Kristjánsson að setja góð skot fyrir utan. Bakvarðasveit Valsara átti svo í miklum vandræðum með kollega sína hinum megin sem komust ítrekað og auðveldlega í hjarta varnarinnar sem opnaði vörn Hlíðarendapilta upp á gátt.
Þá er vert að nefna hlutverk Daníels Guðna þjálfara Njarðvíkinga, en hann var ósáttur við vörn sinna manna í hálfleik. Gjörbreytti taktíkinni, sem svínvirkaði og slátrunin hófst.
Tölfræðin lýgur ekki
Njarðvíkingar voru sterkari á mikilvægum sviðum leiksins. Þeir skutu mikið betur utan af velli (46% gegn 36%), frá þriggja stiga línunni (40% gegn 25%) og af vítalínunni (70% gegn 52%). Þarna má nefna að svona léleg vítanýting er náttúrulega óafsakanleg og ég geri ráð fyrir því að menn verði sendir í að æfa sig.
Suðurnesjamenn voru líka mikið sterkari í fráköstunum og tóku heilum 15 fráköstum fleiri en Valsmenn en frákastabaráttan endaði 42 – 57. Þarna munaði mest um þá félaga Terrell Vinson (10 fráköst) og Ragnar Nathanielsson (13 fráköst)
Vendipunkturinn
Vendipunktur leiksins var í byrjun 3ðja leikhluta. Þá byrjuðu Njarðvíkingar í svæðisvörn sem Valsmenn réðu ekki við og pressuðu vel sem skilaði sér í töpuðum boltum Valsara. Þarna byrjaði Terrell Vinson líka að raða þristum og setti 3 á stuttum tíma. Leikmenn Vals voru virkilega óagaðir gegn svæðisvörninni og gáfu sér ekki tíma til þess að finna góð skot sem leiddi oft til hraðaupphlaupa frá Njarðvíkingum og réðu Valsarar einfaldlega ekkert við Njarðvíkinga þegar þeir náðu að keyra upp hraðann. Á örfáum mínútum varð munurinn 20 stig og leikurinn í raun búinn.
Bekkurinn skilar
Njarðvíkingar fengu virkilega gott framlag af bekknum í kvöld. Þar ber helst að nefna fyrrnefndan Ragnar Nathanielsson sem hefur átt erfiðan vetur innan vallar. Ragnar var eins og kóngur í ríki sínu í teignum, skoraði 10 stig, tók 13 fráköst og varði 2 skot. Virkilega gaman að sjá stóra manninn hrista af sér erfitt umtal og taka af skarið. Njarðvíkingar voru duglegir að finna hann undir körfunni og Ragnar svaraði kallinu. Þá átti Ragnar Helgi Friðriksson fína innkomu, keyrði hraðann upp vel og stýrði sóknarleiknum af stakri prýði.
Umfjöllun Sigurður Orri Kristjánsson
Mynd Torfi Magnússon