spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Keflavík var Keflavík í Keflavík

Umfjöllun: Keflavík var Keflavík í Keflavík

Keflavík tók á móti Skallagrími í Keflavík í seinasta leik beggja fyrir landsleikjahlé. Heimastúlkur höfðu tapað seinasta útileik sínum gegn Stjörnunni með minnsta mun á meðan að Borgnesingar höfðu unnið Breiðabliksstúlkur með 9 stigum heima. Leikurinn í dag var jafn og spennandi framan af en afleitur þriðji leikhluti gerði úti um sigurvonir gestanna. Lokastaðan varð 98-69, Keflavík í vil.
 

Gangur leiksins

Leikar hófust strax frá fyrstu mínútu með hinni sókndjörfu Carmen Tyson-Thomas, en hún skoraði sex af átta fyrstu stigum Skallagrímskvenna. Keflavíkurstelpur voru hins vegar dulegar að sækja og komu muninum upp í 18-8 áður en gestirnir ákváðu að taka leikhlé. Brittany Dinkins var á þessum tíma mjög dugleg að kveikja í sínum stelpum, en hún átti 6 stoðsendingar á fyrstu fjórum mínútum leiksins. Þær í Skallagrím tóku sig aðeins saman í andlitinu eftir leikhléið og gátu lagað stöðuna fyrir leikhlutaskiptin, en þær skoruðu 11 stig gegn 6 stigum Keflvíkinga og staðan í lok leikhlutans var því 24-19, heimastúlkum í vil. Brittany var mjög virk í leikhlutanum og átti þátt í 18 af stigum liðsins í leikhlutanum (3 stig skoruð og 7 stoðsendingar upp á 15 stig).

Skallagrímur mætti aðeins beittari í öðrum leikhluta og voru aggressívar í sóknum sínum, sem að skilaði sér í 6 villum hjá Keflavík (ásamt einni tæknivillu að auki) á móti aðeins einni hjá Skallagrím. Tæknivillan kom eftir harkalegt samstuð Irenu Sól Jónsdóttur og Carmen sem varð til þess að Irena þurfti að yfirgefa völlinn vegna höggsins og þjálfari Keflavíkur, Sverrir Þór Sverrisson, lét í ljós óánægju sína. Keflavík voru þó áfram duglegar í sókn og þrátt fyrir góðan leikhluta hjá gestunum unnu þær græn- og gulklæddu leikhlutans aðeins með einu stigi, staðan í hálfleik var því 44-40.

Litlu slátrararnir (þurfum við ekki að endurvekja þetta nafn?) létu finna allverulega fyrir sér eftir hálfleikshléið, settu í lás í vörninni og refsuðu Skallagrími grimmt fyrir mistökin sín. Ekkert gekk upp hjá gestunum og Thelma Dís Ágústsdóttir og Brittany áttu þrælöflugan leikhluta (10 stig hjá Thelmu og 16 hjá Brittany) fyrir Keflavík. Heimastúlkur gerðu eiginlega út um leikinn í þessum leikhluta, en þær skoruðu 33 stig gegn 8 stigum Skallagrímskvenna. Staðan 77-48.

Seinasti leikhlutinn var eiginlega formsatriði en nokkrar ungar og efnilegar stelpur fengu spilatíma hjá Keflavík og Skallagrímur fékk að reyna sig án Carmen, sem lauk keppni með fimm villur þegar fimm mínútur lifðu leiks. Það gekk ekki allt of illa, en þær skoruðu til jafns við Keflavík í leikhlutanum, 21-21, og leiknum lauk eins og áður sagði 98-69.
 

Góðar frammistöður leiksins

Brittany Dinkins og Thelma Dís Ágústsdóttir voru í ham í leiknum fyrir sitt lið, en þær voru samanlagt með hærra framlag en allt lið Skallagríms (Brittany með 44 í framlag og Thelma með 33 í framlag gegn 64 í liðsframlag frá Skallagrím). Brittany hlóð í myndarlega þrefalda tvennu; skoraði 23 stig, tók 10 fráköst, gaf 17 stoðsendingar, stal fjórum boltum og tapaði aðeins einum bolta. Thelma skoraði 26 stig, tók 6 fráköst og gaf 4 stoðsendingar í leiknum en var líka fáranlega skilvirk; hún hitti úr 11 af 13 skotum utan af velli (85% nýting) og hitti úr öllum fjórum vítunum sínum (100% nýting). Önnur merkileg frammistaða var Emblu Kristínardóttur, en liðið jók muninn um 36 stig meðan hún var inn á vellinum, sem var aðeins í tæpar 15 mínútur.
 

Þáttaskil

Þriðji leikhlutinn var þar sem þáttaskil leiksins urðu, en það virtist allt ganga upp hjá Keflvíkingum í þeim leikhluta. Þær spiluðu fantavörn, hittu úr 11 af 16 skotum utan af velli og 8 af 9 í vítaskotum. Þær skoruðu seinust 16 stigin í röð í leikhlutanum og gerðu út af við allar sigurvonir Skallagríms. Fjórði leikhlutinn var að mestu ruslmínútur eftir slíkan fjórðung.
 

Tölfræðin lýgur ekki

Það er til margs að líta í svona leik. Í fyrsta lagi þá hittu Keflvíkingar úr fleiri skotum í færri tilraunum bæði fyrir innan þriggja stiga línuna (64% vs. 39% í tveggjum) og fyrir utan hana (40% vs. 13% í þristum). Í öðru lagi gefa þær í Keflavík yfir tvöfalt fleiri stoðsendingar en Skallagrímur (32 vs. 14 stoðsendingar). Að lokum sækja þær hvítklæddu fleiri villur (20 vs. 12 villur fiskaðar) sem leiðir til þess að þær fá fleiri vítaskot (27 vs. 14 vítaskot reynd) og þá skiptir engu máli þótt gestirnir hitti úr hærra hlutfalli þeirra (20 vs. 12 vítaskot hitt). 
 

Kjarninn

Þá fara Litlu slátrararnir inn í landsleikjahléið með góðan sigur meðan Skallagrímskonur verða að sætta sig við slæmt tap eftir ágætan fyrri hálfleik. Bæði lið fá góða hvíld fyrir næstu deildarleiki sína, sem verða ekki fyrr en 21. febrúar vegna landsliðsleikjahlésins. Það má teljast dálítið merkilegt að þessi tvö lið, nýkrýndir bikarmeistarar Keflvíkinga og Skallagrímskonur sem komust í undanúrslit Maltbikarsins nú fyrir skemmstu, senda samanlagt einn leikmann í landsliðsverkefnið framundan, en það er hún Sigrún Sjöfn Ámundadóttir úr Skallagrími. 
 

Tölfræði leiksins

Viðtöl eftir leikinn

 
Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson
Fréttir
- Auglýsing -