ÍR-ingar hafa heldur sloppið við meiðsli lykilmanna í vetur en sú lukka rann á enda þegar Matthías Orri Sigurðarson var greindur með bólgur í festingum á ökkla snemma í mánuðinum og þegar Danero Thomas lenti illa í leik gegn Þór Þorlákshöfn. Þar að auki er Daði Berg Grétarsson að fást við bakmeiðsli.
Samkvæmt heimildum Karfan.is var Matthíasi gert að hvíla í 2-3 vikur en þjálfarateymi liðsins eygir þó von um að hann spili þrjá síðustu leiki liðsins í deildarkeppninni. Danero Thomas virðist hafa sloppið með skrekkinn eftir slæma lendingu í fyrrnefndum leik en hann lék með liðinu gegn Val í gærkvöldi og virtist heill heilsu. Bakmeiðsli hrjá svo Daða Berg en þjálfarar ÍR eru vongóðir með að hann verði klár í slaginn á fimmtudaginn kemur.
ÍR-ingar þurfa á öllum þessum leikmönnum að halda í baráttunni um toppsætið í deildinni þar sem nokkrir erfiðir leikir eru á dagskránni hjá þeim áður en deildarkeppninni lýkur.