spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaGrindavík vann deildarmeistarana

Grindavík vann deildarmeistarana

Næst síðasta umferð Subway deildar kvenna fór fram í kvöld með fjórum leikjum. Í Grindavík tóku heimakonur á móti Keflavík. Bæði lið eru pikkföst i deildinni og gat staða þeirra ekki breyst fyrir leikinn, Grindavík í fimmta sætinu en Keflavík búið að tryggja sér deildarmeistaratitil.

Jafnræði virtist ætla að vera með liðunum í upphafi leiks og var jafnt á flestum tölum í fyrsta leikhluta. Keflavík komst 20-15 yfir i byrjun annars leikhluta en þá skellti Grindavík í lás og náðu gestirnir ekki að setja stig á töfluna í tæpar 6 mínútur. Staðan í hálfleik 30-24 fyrir Grindavik.

Grindavík hóf þriðja leikhluta með látum og komust 37-24 snemma. Áhlaup Grindavíkur frá upphafi annars leikhluta var þarna 22-4 og hola Keflavíkur orðin djúp. Gestirnir börðust allt til loka og náðu muninum mest niður í þrjú stig. Grindavík gerði vel að halda í forystuna og lönduðu að lokum sex stiga sigri 63-57.

Elma Dautovic var atkvæðamest í liði Grindavíkur með 13 stig og 13 fráköst. Þá var Danielle Rodriques öflug að vanda með 8 stig, 8 fráköst og 7 stoðsendingar. Stig Grindavíkur dreifðust vel á milli og fengu margar að spreita sig.

Hjá Keflavík var Daniela Morillo líkt og oft áður frábær og endaði með 15 stig, 10 fráköst og 7 stolna bolta. Íslensku leikmenn Keflavíkur virtust ekki finna taktinn í kvöld.

Grindavík hefur átt þokkalegasta tímabil í vetur, verið nálægt þvi að vinna liðin fyrir ofan sig en þetta var einungis annar sigur liðsins á topp 4 liðunum í vetur. Sá fyrri kom fyrir áramót gegn Njarðvík. Liðið ætti að geta byggt ofan á góðar frammistöður í vetur og verður spennandi að fylgjast með framhaldinu.

Keflavík situr sem fastast í efsta sætinu fyrir lokaumferðina og geta ekki farið þaðan. Keflvíkingar þurfa ekki að örvænta þrátt fyrir tap kvöldsins, liðið hafði ekkert að keppa að og því fór sem fór.

Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -