spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaHáspenna lífshætta er ÍR lagði Blika í Smáranum

Háspenna lífshætta er ÍR lagði Blika í Smáranum

ÍR lagði Breiðablik í Smáranum í kvöld í 27. umferð Subway deildar kvenna, 77-79.

Eftir leikinn sem áður eru ÍR fallnar úr deildinni, í 8. sætinu, nú með 4 stig á meðan að Breiðablik er í sætinu fyrir ofan með 8 stig.

Fyrir leik

Fyrir leik kvöldsins höfðu liðin í þrígang áður mæst í deildinni og hafði Breiðablik haft nokkuð örugga sigra í öll skiptin. Nú síðast þann 19. febrúar með 15 stigum í Skógarseli. Í þeim leik var Rebekka Rut Hjálmarsdóttir atkvæðamest fyrir ÍR með 15 stig og 6 fráköst. Fyrir Blika var það Sóllilja Bjarnadóttir sem dró vagninn með 13 stigum, 9 fráköstum, 6 stoðsendingum og 8 stolnum boltum.

Gangur leiks

Leikurinn er í miklu jafnvægi á upphafsmínútunum þar sem liðin skiptast á snöggum áhlaupum. Nokkuð ljóst að bæði lið ætluðu að leyfa sem flestum að koma að í þessum leik, þar sem einir ellfu leikmenn komust á blað í stigaskorun í fyrsta leikhlutanum, en þegar hann er á enda er ÍR 3 stigum yfir, 18-21.

Hraði leiksins eykst mikið í upphafi annars leikhlutans. Þar sem heimakonur í Breiðablik fengu nokkra þrista til þess að detta fyrir sig á meðan að ÍR átti aðeins erfiðara með að koma stigum á töfluna. Blikar leiða lungann úr leikhlutanum og skrefinu á undan þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 48-42.

Stigahæst í fyrri hálfleik fyrir Blika var Birgit Ósk Snorradóttir með 15 stig, en fyrir ÍR var Greeta Uprus komin með 16 stig.

ÍR mætir með mikla orku inn í seinni hálfleikinn. Ná þær að vinna niður forskot heimakvenna og komast yfir um miðbygg leikhlutans. Liðin skiptast svo á forystunni í nokkur skipti í lok fjórðungsins, en staðan fyrir þann fjórða er 61-60 Blikum í vil. Leikar haldast jafnir svo vel inn í lokaleikhlutann, þar sem enn munar aðeins tveimur stigum á liðunum þegar tæpar fimm mínútur eru til leiksloka, 69-71. Áfram er leikurinn jafn fram á lokamínútuna, en þegar ein og hálf mínúta er eftir er allt jafnt, 75-75. Undir lokin nær ÍR svo að vera skrefinu á undan og heldur að lokum út í virkilega sterkum sigri, 77-79.

Atkvæðamestar

Atkvæðamest í liði ÍR í kvöld var Greeta Uprus með 27 stig, 7 fráköst og Margrét Blöndal bætti við 13 stigum og 10 fráköstum.

Fyrir heimakonur í Breiðablik var Birgit Ósk Snorradóttir atkvæðamest með 22 stig, 7 fráköst, 4 stoðsendingar og 6 stolna bolta. Henni næst var Rósa Björk Pétursdóttir með 18 stig og 13 fráköst.

Hvað svo?

Lokaumferð Subway deildar kvenna fer fram eftir slétta viku miðvikudaginn 29. mars, en þá heimsækir Breiðablik Hauka og ÍR fær Grindavík í heimsókn.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -