spot_img
HomeFréttirSlátrun í Ásgarði

Slátrun í Ásgarði

 

Keflvíkingar komu í heimsókn í Garðabæinn í kvöld til þess að mæta heimamönnum í Stjörnunni. Fyrir leikinn var búist við hörkuleik enda liðin í 7unda og 8unda sæti deildarinnar að mætast, í síðustu umferð sigruðu Keflvíkingar Njarðvíkinga í nágrannaslag en Stjörnumenn töpuðu fyrir Haukum á Ásvöllum.

 

Það er skemmst frá því að segja að þessi leikur varð aldrei spennandi, Stjörnumenn höfðu tögl og haldir frá upphafsmínútunum og löndu að lokum stórsigri 99 – 67, sem er minni munur en hann hefði átt að vera enda langur ruslatími í leiknum.

 

Tómas Þórður Hilmarsson var bestur Stjörnumanna í leiknum með 26 stig, 16 fráköst og 4 stoðsendingar en hjá Keflavík var Hörður Axel Vilhjálmsson með 13 stig.

 

 

Gangur leiksins

Það var eiginlega ljóst strax á fystu sekúndunum að bara annað liðið var mætt til leiks. Stjörnumenn opnuðu á 2 þriggja stiga körfum og byrjuðu leikinn 10-2. Svo héldu Garðbæingar bara áfram að lemja á Suðurnesjamönnum sem spiluðu litla sem enga vörn og fengu Stjörnumenn allt það sem þeir vildu, bæði fyrir utan þriggja stiga línuna sem og undir körfunni.

 

 

Tölfræðin lýgur ekki

Stjörnumenn dómineruðu þennan leik frá a – ö þó hvergi eins harkalega og í fráköstunum og fyrir utan þriggja stiga línuna. Stjarnan tók 13 fráköstum fleiri og endaði frákastabaráttan 54 – 41. Þá settu Stjörnumenn 14 þriggja stiga skot gegn einungis 7 frá Keflvíkingum.

 

 

Hetjan

Tómas Þórður Hilmarsson lék á alls oddi í leiknum og var kominn með 22 stig og 12 fráköst strax í fyrri hálfleik, hann lauk leik með 26 stig, 16 fráköst, 4 stoðsendingar og einungis 1 tapaðann bolta. Virkilega gaman að fylgjast með Tómasi sem er að bæta sig með hverjum leiknum og skilar miklu framlagi á báðum endum vallarins, yfirburðamaður í dag. Sérstaklega skemmtilegt að sjá hvað hann er duglegur að koma sér í réttar stöður til þess að taka fráköst á báðum vallarhelmingum.

 

 

Næstu skref

Í lokaumferðinni mæta Keflvíkingar ÍR-ingum á heimavelli en Stjörnumenn þurfa að gera sér ferð norður yfir heiðar til þess að spila við Tindastól á Sauðárkróki. Bæði Stjarnan og Keflavík eru komin í úrslitakeppnina og þá verða Suðurnesjamenn að finna betri takt svo þeim verði ekki einfaldlega sópað út.

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn

 

Umfjöllun Sigurður Orri Kristjánsson

Myndir og viðtöl Davíð Eldur

 

Viðtöl:

 

 

Fréttir
- Auglýsing -